Ráðgjöf um sambúðarslit, hjónaskilnað og forsjá barna

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:07:33 (3600)


[16:07]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vona að því verði ekki mótmælt þó að ég geri athugasemd sem svolítið kann að vera til hliðar við það efni sem hér er til umræðu, en að mínu viti hefur mjög mistekist að framkvæma barnalögin eins og þau eru og ekki síst það sem varðar umgengnisrétt við börn. Það linnir ekki klögumálum manna yfir því að samningar um umgengnisrétt séu ekki haldnir þó að skýrt hafi verið kveðið svo á um í samningum milli hjóna sem skilja. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvers vegna helst foreldri það uppi að hafna umgengni þó að um annað hafi verið samið? Eru ekki einhver ráð til þess að fólk standi ekki ráðalaust gagnvart slíku?