Olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:24:08 (3607)

[16:24]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber fram fsp. á þskj. 498 til fjmrh. um olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að taka upp olíugjald í stað þungaskatts eða vegagjalds á dísilbíla? Ef svo er, hvenær áætlar hann þá að breytingin eigi sér stað? Hvernig telur ráðherra að innheimta hafi gengið í núverandi kerfi?``
    Virðulegur forseti. Ég hef í umræðum um skattamál bæði fyrir áramótin síðustu og næstliðin á undan spurt hæstv. fjmrh. hvort ekki sé á döfinni að taka upp olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla. Svarið hefur alltaf verið það sama, að málið sé í skoðun og verði tekið fyrir þegar um hægist hjá skattadeildinni í ráðuneytinu. Nú er Ísland orðið eina landið í Vestur-Evrópu sem enn er með þetta fyrirkomulag og m.a. er svo komið að mikil þróun sem á sér stað í þróun dísilvéla á smærri bíla nær ekki til okkar meðan þær reglur eru í gildi sem hér eru.
    En það er kannski ekki aðalatriðið í þessu. Aðalatriðið er að þetta er farið að bitna mjög illa á

flutningastarfsemi í landinu, þ.e. það er farið að bitna mjög illa á þeim sem standa skil á sínum sköttum. Það er vitað að það eru veruleg undanskot í gangi hvað þetta snertir og meira að segja hægt að tiltaka dæmi þar sem hægt er að benda á að menn séu beinlínis að bjóða niður verkefni og það meira að segja hjá ríkinu á þeim forsendum að menn skili ekki þeim þungaskatti sem þeim sé ætlað. Þetta er líka farið að koma niður á hópferðaakstri.
    Ég tel því afar brýnt að gengið sé í þetta mál og því komið í það horf sem viðgengst hjá öllum okkar nágrannalöndum. Það er miklu réttlátari og skilvirkari skattheimta. Hún er greidd um leið og olían er keypt á viðkomandi farartæki og olíueyðslan er í réttu hlutfalli við þunga þess ökutækis sem notað er og þunga þess hlass sem það dregur. Mér finnst því allt mæla með þessu.
    Að lokum vil ég ítreka þá spurningu til hæstv. fjmrh. hvernig hann telji að hafi tekist til við innheimtu á þessu gjaldi á umliðnum árum.