Olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:27:35 (3608)


[16:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Á árinu 1993 var skipaður starfshópur til að kanna hvort æskilegt væri að leggja niður innheimtu þungaskatts samkvæmt vegamælum en taka í stað þess upp fastagjald af dísilbifreiðum, mishátt eftir þyngd, og að auki gjald á hvern lítra af olíu. Starfshópurinn hefur í samstarfi við olíufélögin gert úttekt á kostum og göllum þess að taka upp olíugjald. Hefur m.a. verið lagt mat á kostnað við að lita olíu í tengslum við upptöku á olíugjaldi. Þá hefur jafnframt verið skoðuð sú leið að taka upp olíugjald án þess að til litunar komi en sú leið var t.d. valin í Danmörku. Auk þess hefur verið kannað hvort rétt sé að byggja á núverandi kerfi en gera jafnframt á því lagfæringar. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum í febrúar og mun ég í framhaldi af því leggja fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag þessara mála.
    Ef ákveðið verður að taka upp olíugjald án litunar gæti það orðið um áramótin 1994--1995. Ef hins vegar verður ákveðið að taka upp olíugjald og lita þá olíu sem er gjaldfrjáls verður að gefa olíufélögunum nokkurn aðlögunartíma þannig að sú breyting gæti í fyrsta lagi komið til framkvæmda um áramótin 1995--1996 ef ákvörðun um litun liggur fyrir fljótlega.
    Ég legg áherslu á að það skiptir máli hvor leiðin er valin.
    Núverandi kerfi, þ.e. þungaskattur, hefur kosti og galla. Kostir þess eru að það gerir kleift að miða skattlagninguna við notkun á vegum sem er í samræmi við mörkun þessa tekjustofnar til vegagerðar. Innheimta skattsins eftir að álagning hefur farið fram hefur einnig gengið nokkuð vel vegna þess að bifreiðar fá ekki skoðun og heimilt er að taka skráningarnúmer af bifreiðum ef skatturinn er ekki greiddur. Sem svar við fsp. hv. þm. má því segja að út af fyrir sig gangi innheimtan vel.
    Ég vil þó taka fram að þess eru dæmi eins og víðar í atvinnurekstri að þeir sem hafa misst bíl eða jafnvel ekki greitt hafi síðan stofnað nýtt fyrirtæki, hafið aftur atvinnurekstur og notað gamla bíla. Það eru því sömu gallar á þessu fyrirkomulagi og almennt þegar reynt er að taka aðila, sérstaklega aðra en lögaðila, fyrirtæki, út úr rekstri. Það er einnig ljóst og almennt viðurkennt að þetta kerfi hefur annmarka, svo ég komi nú að göllunum. Þeir eru að það hefur gerst, og eru þekkt dæmi um það, að svindlað sé á kerfinu. Þetta kerfi býður t.d. upp á það að undið sé ofan af mælum, ekið á stærri dekkjum en mælarnir gera ráð fyrir o.s.frv., sem leiðir til þess að reynt er að komast hjá skattlagningu sem viðkomandi aðilar eiga að standa skil á.
    Þetta leiðir til þess að það verður óþolandi mismunur á samkeppnisaðstöðu þeim í hag sem sniðganga skattlagningu með ólögmætum hætti. Þetta ásamt öðru hefur leitt til þess að mótuð hefur verið sú stefna að hverfa til annars fyrirkomulags eins fljótt og unnt er eins og ég sagði fyrr í mínu svari.
    Niðurstaðan er sú að ég tel, eins og ég hef reyndar sagt áður úr þessum ræðustól, eðlilegt að stefna að því að taka upp olíugjald. Að því er unnið og skýrsla ætti að liggja fyrir í næsta mánuði. Á grundvelli þeirrar skýrslu verður hægt að taka endanlega ákvörðun. Það koma tveir kostir til greina, annars vegar lituð olía hins vegar ólituð. Verði hún ólituð koma upp jaðartilvik sem þarf að fást við og þá koma endurgreiðslur til greina. Verði hún lituð þurfa olíufélögin lengri aðdraganda og það er dýrari aðferð. Á meðan þessu vindur fram hefur Vegagerðinni verið falið að líta eftir skattinum og ef hægt er að finna einhverja góða lausn á skattinum eins og hann er innheimtur núna ætla ég ekki að útiloka að það verði ein af ákvörðununum þótt ég telji það harla ólíklegt miðað við þá reynslu sem fengist hefur af þessum málum í okkar nágrannalöndum.