Olíugjald í stað þungaskatts á dísilbíla

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:36:34 (3611)


[16:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að stefna mín í þessu máli er sú að það sé æskilegt að breyta til og hverfa til olíugjaldsins. Ég minni á að í því felst stefnubreyting því í tíð síðustu ríkisstjórnar var beinlínis tekin ákvörðun um að gera það ekki heldur halda í það kerfi sem hér er við lýði. Málið var skoðað ítarlega og niðurstaðan var skýr: Höldum í það kerfi sem við höfum. Ég er því að bisa við það að breyta þeirri stefnu þrátt fyrir það að margir, þar á meðal margir í kerfinu, séu andvígir slíkri breytingu.
    Í öðru lagi vil ég segja að málið er ekki auðvelt. Það er ekki hlaupið að því að breyta þessu kerfi og fleiri en ein leið til þess. Sú leið sem er einföldust í framkvæmd kann að vera erfiðust í eftirliti. Það er talið að það þurfi upp undir ár, hálft ár það minnsta jafnvel meira, í góðu samstarfi við olíufélögin til þess að koma á því kerfi. Þá er eftir að fást við mjög vandasöm jaðartilvik t.d. í landbúnaði, sjávarútvegi og þar sem olía er notuð til að hita upp húsnæði.
    Í þriðja lagi vil ég segja að það er þekkt að vegamálastjóri og Vegagerð ríkisins vilja fremur halda í núverandi kerfi og eftirlitið hefur verið fært yfir til þeirra eins og ég gat um í mínu svari til þess m.a. að kynna sér hvort það sé viðunandi að halda því kerfi áfram sem nú ríkir. Ég hef efasemdir um það og vil breyta því en ég vil hins vegar ekki útiloka það þegar allt er skoðað að sú verði niðurstaðan þótt það stríði gegn minni meginstefnu í málinu sem ég hef oftsinnis kynnt.
    Loks vegna aðgerða í skattamálum hefur núv. ríkisstjórn og núv. fjmrh. öðrum ráðherrum fremur beitt sér fyrri hertu skatteftirliti á þessu sviði og jafnframt stórhertri innheimtu. Eftirlitið hefur verið fært yfir til Vegagerðarinnar einmitt til þess að það verði harðara og betur framkvæmt en hingað til og skal þó ekki kastað rýrð á þá menn sem að því verki hafa staðið að undanförnu.