Starfsmannaíbúðir sjúkrahúsa

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:43:01 (3613)


[16:43]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hefur beint til mín svohljóðandi fsp.:
    ,,Hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að taka undir ráðuneytið alla umsýslu með starfsmannaíbúðir sem sjúkrahús og aðrar sjúkrastofnanir hafa til umráða?``
    Á haustþingi 1991 var gerð fsp. um embættisbústaði. Annar liður þeirrar fsp. var svohljóðandi:
    ,,Hvert er starfsheiti þeirra sem hafa afnot af embættisbústöðum og hver er húsaleigan sundurliðuð eftir bústöðum?``
    Í þriðja lið þeirrar fsp. var einnig spurt:
    ,,Hvernig er húsaleiga ákvörðuð?``
    Við skoðun kom fram að ákvörðun um upphæð leigugjalda var mismunandi þrátt fyrir reglugerð þar um, nr. 334, sem gefin var út í júní 1992. Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem áðurnefnd fsp. leiddi í ljós skipaði fjmrh. nefnd og var verkefni hennar eftirfarandi:
    1. Endurskoða gildandi reglur um ákvörðun leigugreiðslna fyrir fasteignir og land.
    2. Nefndin skal afla upplýsinga um leigugreiðslur ríkisstarfsmanna fyrir afnot af fasteignum í eigu ríkisins og koma á nauðsynlegum breytingum í samræmi við reglur.
    Nefndin skilaði af sér í júlí 1992 og segir í niðurstöðu hennar:
    Mikilvægasta niðurstaða nefndarinnar er sú að verulega skortir á að gildandi reglum sé framfylgt um leigugreiðslur ríkisstarfsmanna fyrir afnot af íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins.
    Önnur mikilvæg niðurstaða er að engum skilgreindum reglum er framfylgt við útvegun íbúðarhúsnæðisins.
    Nefndin lagði síðan til við fjmrh. að ný reglugerð yrði gefin út í stað reglugerðar nr. 334/1982. Breytingarnar voru einkum þær að í hinni nýju reglugerð, nr. 480/1982, er kveðið á um að allar leigutekjur renni til reksturs og viðhalds þessara eigna. Lítils háttar breyting varð á gildistölu íbúðarsvæða.
    Á árinu 1991 voru engin leigugjöld greidd af 21 embættisbústað í eigu stofnana á vegum heilbr.- og trmrn. Í 23 tilfellum var húsaleiga reiknuð samkvæmt reglugerð eða hærri en reglugerð segir fyrir um.
    Samkvæmt reikningum stofnana fyrir árið 1991 voru leigutekjur aðeins 10 millj. 753 þús. af u.þ.b. 25 millj. kr. skv. eldri reglugerð, nr. 334/1982.
    Samkvæmt upplýsingum fjármálaskrifstofu ráðuneytisins hafa tekur lítið breyst á síðustu tveimur árum.
    Megintilgangur ráðuneytanna með breytingu á innheimtu er sá að leigugjöld séu þau sömu að teknu tilliti til búsetu hvar sem er á landinu sem vonast er til að komi í veg fyrir að einstakar stofnanir bjóði starfsfólki önnur kjör en lög og reglur segja fyrir um. Annar megintilgangur er sá að tryggja einhverjar tekjur til viðhalds á þessum eignum en embættisbústaðir hafa ekki haft sérstakan tekjustofn í fjárlögum og bera þessar eignir þess víða glöggt vitni. Embættisbústöðum fjölgaði nokkuð á árinu 1980--1990. Dæmi eru um að stofnanir hafi á fáum árum keypt 6--8 íbúðir án tilskilinna heimilda. Þó hefur ríkissjóður að sjálfsögðu greitt 85% af andvirði þeirra. Þetta var gert af svokölluðum halladaggjöldum sem greidd voru áður en þessar stofnanir voru sett á föst fjárlög.
    Heildarfjárveiting til viðhalds heilsugæslustöðva var á síðasta ári 29,5 millj. kr. og til viðhalds sjúkrahúsa annarra en Ríkisspítala voru 27,4 millj. kr. á fjárlögum ársins 1993, þar eru meðtalin 185 einbýlishús, íbúðir og einstaklingsherbergi.
    Samkvæmt nákvæmri athugun á síðari hluta ársins 1993 ættu öll leigugjöld í dag að nema u.þ.b.

34 millj. kr. á ári eða 2,9 millj. á mán. Það er ekki tilgangur ráðuneytisins að hafa önnur afskipti af þessum málum en að tryggja að leigutekjur renni í viðhaldssjóð samkvæmt hinni nýju reglugerð og að stuðla að því að viðhald þessara eigna verði viðunandi, koma festu á þessi mál. Samkvæmt reglum sem ráðuneytið gaf út í tengslum við þessa breytingu er sýnt að ekkert breytist nema það að ráðuneytið gerir húsaleigusamninga á sérstakt samningsform sem fjmrn. hefur gefið út og sendir viðkomandi stofnun til undirritunar og að viðkomandi leigjendur eða stofnanir fyrir þeirra hönd senda leigugjöldin mánaðarlega til ríkisféhirðis.
    Á hinn bóginn er æskilegt eins og raunar heimild í 3. gr. áðurnefndrar reglugerðar segir til um og þegar þessi mál eru komin í viðunandi horf að stofnanir taki aftur við þessari umsýslan, þó með því skilyrði að farið sé að lögum og reglugerð virt, m.a. að leigutekjur séu nýttar til reksturs og viðhalds eignanna, en ekki til reksturs stofnananna eða til eignakaupa.
    Heilbr.- og trmrn. hefur þó valið þá leið að fyrst um sinn verði sá þáttur sem hér að framan greinir í höndum ráðuneytisins en umsjónaraðili verði eftir sem áður stjórnir viðkomandi stofnana.
    Ég vil hins vegar árétta að ég vænti þess að fyrr en síðar að verði unnt að færa þessa umsýslu heim í hérað á nýjan leik þegar komin er festa á fyrirkomulag þessara mála og skilningur er orðinn almennur að leigutekjur þessar renni til þeirra hluta sem reglugerð segir fyrir um, nefnilega viðhald eignanna sem svo sannarlega er þörf á að bæta.