Jöfnun á rekstraraðstöðu mjólkursamlaga

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:56:59 (3617)


[16:56]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Í frv. sem undirbúið var í landbrn. til breytinga á búvörulögum voru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi verðmiðlunar samkvæmt tillögum sjömannanefndar frá í maí 1992 um breytt fyrirkomulag í mjólkurframleiðslu. Gerð var tillaga um breytingu á 19. gr. búvörulaganna, þ.e. lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem fól í sér að unnt væri að takmarka verðmiðlun á mjólk milli mjólkursamlaga.
    Tillögurnar fólu í sér að í stað almennrar verðmiðlunar yrði tekið upp svokallað flutningsjöfnunargjald sem yrði 1% af heildarandvirði mjólkurafurða. Gjaldið skyldi ganga til að styrkja flutninga innan svæða og til svæða þar sem nauðsynlegt teldist. Jafnframt skyldi gjaldið ganga til þess að styrkja rekstur einstakra lítilla mjólkurbúa mæltu sérstakar aðstæður með því.
    Flutningsjöfnun frá framleiðanda að afurðastöð skyldi aldrei vera meira en nemur áætluðum kostnaði við að flytja neyslumjólk til viðkomandi svæðis. Forsenda framlagsins skyldi vera sú að hagkvæmara væri að styrkja flutning að afurðastöðvum en að flytja vöruna til að þjóna markaðinum.
    Hinn 15. des. 1992 var síðan gert samkomulag milli samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og framkvæmdanefndar búvörusamninga þar sem mjólkuriðnaðurinn samþykkir að taka á sig hagræðingarkröfu um 2,62% fyrir árið 1992, 2,5% árið 1993 og 2,5% fyrir árið 1994. Jafnframt er gert samkomulag um að settar verði reglur sem fela í sér að stuðningur sem flutningsjöfnunargjald stendur undir verði aldrei meiri en kostar að flytja mjólk til og frá viðkomandi svæði. Þá er enn fremur samkomulag um að hraða setningu reglna um úreldingu og hagræðingu í mjólkuriðnaði.
    Við umfjöllun landbn. um frv. kom fram það álit sérfróðra manna að fyrirhugaðar breytingar á verðmiðlunarfyrirkomulagi mjólkur gætu náð fram að ganga án þess að til lagabreytingar kæmi.

    Við undirbúning landbrn. að breytingu á reglugerð um verðmiðlun mjólkur árið 1993 komu hins vegar fram efasemdir lögfræðinga um að fyrirhugaðar breytingar gætu náð fram að ganga innan ramma laganna. Samkomulag hafði orðið milli samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og framkvæmdanefndar búvörusamninga um hvaða breytingar væru nauðsynlegar á fyrirkomulagi verðmiðlunar mjólkur sem setja skyldi í reglugerð. Lögfræðingar landbrn. og afurðastöðva í mjólkuriðnaði töldu að þessar breytingar á verðmiðlun rúmuðust tæplega innan núverandi löggjafar svo breyting væri nauðsynleg á búvörulögum. Því var frv. þar að lútandi lagt fyrir Alþingi sem mál nr. 292 og varð að lögum í desember sl. Breytingin á lögunum fólst í að afnuminn er sá almenni réttur sem mjólkurbúin eiga í dag til þess að hljóta verðmiðlun. Í stað þess er sá réttur einungis veittur við sérstakar aðstæður. Þar er sérstaklega hugsað fyrir því að afurðastöðvar sem óhjákvæmilegt er að starfrækja af landfræðilegum ástæðum öðlist rekstrartryggingu á líkan hátt og mjólkuriðnaðurinn hefur haft almennt samkvæmt áðurgildandi lögum. Til þessa verkefnis eru áætlaðar á verðlagi í dag til ráðstöfunar um 70 millj. kr. sem er talið nægjanlegt til verkefnisins.
    Ég vil taka það fram jafnframt að sú reglugerð sem leitað er eftir var gefin út fyrir helgina, á föstudag. Þar er það ákvæði sem ekki var í fyrri reglugerð að lækka skuli verðmiðlun til hvers mjólkurbús til samræmis við umsamda hagræðingarkröfu samanber það samkomulag milli samtaka afurðastöðva og framkvæmdanefndar búvörusamninga frá 15. des. 1992 sem ég áður gat um og nemur 2,62%. Það var talið vegna þess hversu seint reglugerðin var sett að ekki stæðu efni til þess að ganga lengra til móts við það samkomulag sem gert var um hagræðingu í mjólkuriðnaði og ég hef áður vísað til.
    Ég vil líka láta þess getið að nú er í vinnslu, og ég hef raunar orðið fyrir vonbrigðum að því verki skuli ekki lokið, reglugerð sem lýtur að því hvernig staðið skuli að hagræðingu innan mjólkuriðnaðarins. Það liggur nú fyrir skýrsla um eignaraðild mjólkurbúa og ekki efni til annars en að frá því máli verði gengið.