Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 14:01:32 (3639)


[14:01]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það var mælt fyrir þessu frv. til lyfjalaga sl. fimmtudag en engin umræða fór fram um það þá.
    Það frv. sem hér er til umræðu er nánast óbreytt frá því sem það var lagt fram á 116. löggjafarþingi, en þá var mikil gagnrýni á það. Það hefur lítið breyst síðan nema það er kominn nýr hæstv. heilbrrh. síðan og ég vona að það verði auðveldara að fá svör við ýmsum þeim spurningum sem brunnu á okkur þingmönnum þá en var þegar hæstv. heilbrrh. Sighvatur Björgvinsson var hér við völd og setti samasemmerki við mjólkursölu og lyfsölu. Og það olli mér dálitlum vonbrigðum þegar hæstv. núv. heilbrrh. byrjaði ræðu sína á fimmtudaginn einmitt með þeim orðum að það væri eðlilegt að svipað frjálsræði ríkti við sölu matvæla og sölu lyfja, en eins og alþjóð veit, þá er sala lyfja allt annað mál en sala annarra efna því að í eðli sínu eru lyf eitur og það þarf að fara með þau sem slík.
    Það kemur strax fram í 1. gr. þessa frv., með leyfi forseta:

    ,,Við verslun með lyf skal það ætíð haft til hliðsjónar að lyfjadreifing er hluti heilbrigðisþjónustu og starfsmenn við dreifingu skulu vinna með öðrum aðilum að heilbrigðisþjónustunni að opinberum heilbrigðismarkmiðum hverju sinni.``
    Þarna er talað um að það skuli hafa hliðsjón af heilbrigðismarkmiðum lyfjadreifingar. Mér finnst að þarna sé ekki nógu sterkt til orða tekið. Það á að vera meira en hliðsjón. Það á að vera aðlatriði og það sem mér finnst aðalatriðið er að þetta frv. samrýmist ekki heilbrigðissjónarmiðum. Það samrýmist fyrst og fremst samkeppnissjónarmiðum en ekki heilbrigðissjónarmiðum og það hefur ekki breyst varðandi meðferð þessa frv. frá því að það var lagt fyrir á síðasta þingi. Þetta ætla ég að undirstrika enn og aftur, þetta er aðalatriðið.
    Það kemur líka fram í þessu frv. og strax í 1. gr. ýmislegt sem orkar tvímælis að hægt sé að standa við svo ekki sé meira sagt og er satt að segja ekki annað hægt en segja en að það sé oftúlkað sem þar er sagt. Í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Það er jafnframt markmið með lögum þessum að tryggja eftir föngum gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, draga úr óhóflegri notkun lyfja og minnka lyfjakostnað.``
    Ef ég byrja hér á fyrstu markmiðunum varðandi gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, þá er það þannig í dag að við höfum búið við mikið öryggi hvað varðar lyfjaþjónustu á Íslandi. Og við höfum líka búið við það að það er nánast 100% öryggi varðandi lyfsölu á Íslandi. Og það verðum við að segja að það er mikilvægt og það er mikilvægt að halda því. Um leið og við fjölgum sölustöðum, þá verður erfiðara að halda utan um þetta og um leið og lyfsala eða lyfjainnflutningur breytist með nýjum EES-reglum, þá verður líka erfiðara að halda utan um þetta.
    Ég held að enginn dragi það í efa að eins og þetta er í dag, þá er öryggið mikið og það er mikilvægt að þar verði ekkert úr dregið. Það kemur einnig fram hér eins og ég sagði áðan, að þetta frv. eigi að draga úr óhóflegri notkun lyfja og minnka lyfjakostnað. Það er ekkert í þessu frv. sem bendir til þess að það dragi úr óhóflegri notkun lyfja, þvert á móti. Þvert á móti hef ég fært fyrir því rök að þetta er lyfjahvetjandi frv. og með aukinni samkeppni í lyfsölu er verið að hvetja til aukinnar notkunar. Um leið og samkeppnin verður svo mikil að menn verða að fara að auglýsa lausasölulyf, þá er það ekki spurning að notkunin verður meiri. Þannig er það bara almennt í verslunum. Og af hverju ætti þetta að minnka lyfjakostnað? Hvernig mætti það vera að þetta mundi minnka lyfjakostnað? Getur það verið með því að auka fjárfestingu stórkostlega að það geti lækkað kostnaðinn á lyfjunum? Ef svo er þá er einhverju stórkostlega ábótavant við þetta í dag, menn hafi ekki haldið utan um þetta eins og þetta er, ef menn halda það að með aukinni fjárfestingu einni saman geti menn lækkað lyfjaverð. En það er nefnilega það eina sem er í þessu frv. að það er hvatt til aukinnar fjárfestingar.
    Er það þannig í dag að Íslendingar éti lyf í óhófi? Hverjar eru staðreyndirnar? Það er nýkomin skýrsla þar að lútandi og menn hafa skoðað hana. Sem betur fer er Ísland næst lægst Norðurlandanna hvað lyfjaneyslu varðar. Norðmenn eru þeir einu sem eru lægri en við. En við skulum þá skoða hverjir eru þeir hæstu. Japanir eru langhæstir. Og hvernig er sölu lyfja háttað í Japan? Þar er algert frelsi. Í Þýskalandi er líka frelsi og þar eru lyf seld í mjög ríkum mæli. Ef við höldum áfram þá er það einnig í Bandaríkjunum en Bandaríkjamenn eru einmitt að hverfa frá þessu frelsi og eru að skoða hvernig Norðurlandaþjóðir hafa haft þessi mál í sínum höndum og eru jafnvel að fara í það horf sem við erum að fara í. En þá erum við aftur á móti að snúa við og gera eins og Bandaríkjamenn og Japanir. Þetta er auðvitað mál sem menn verða að íhuga.
    Tökum fleiri þjóðir og skoðum þessa dreifingu, tökum t.d. Portúgala sem eru ósköp svipaðir og við varðandi lyfjaneyslu en lyfjaverð er þar að vísu lægra sem kemur að sjálfsögðu til vegna þess að markaðurinn í Portúgal er miklu stærri heldur en markaðurinn á Íslandi. En Portúgalar eru með alveg sama kerfi og Íslendingar og eru svona algerlega í lágmarki varðandi verð og lyfjaneyslu þannig að ég bið hæstv. heilbrrh. ef hann hefur ekki skoðað það að skoða það gaumgæfilega og bera þetta saman.
    Þá er líka rétt að skoða það vegna þess að það kom hérna frammíkall áðan hvort Íslendingar leggi miklu meira á lyf í smásölu en aðrar þjóðir. Það verðum við að skoða. Á Íslandi er þessu svo háttað að ef lyf kostar 100 kr. þá fær apótekið 30 kr., ríkið fær 20 kr. og heildsalinn fær 10 kr. Framleiðandinn fær 40 kr. Ef við tökum Danmörk sem dæmi, þá fær danska ríkið 17 kr., apótekið fær 27,50 kr. og heildsalinn fær 4,10 kr. Framleiðandinn fær aftur á móti 51,40 kr. Þetta eru heimildir frá Farmasía og þessar heimldir eru frá 1992. Það er einmitt gott að taka Danmörk sem dæmi því að Danir höfðu tekið þá ákvörðun að breyta sínu lyfsölukerfi svolítið í átt við það sem hér er boðað í frv. frá hæstv. heilbrrh. en á sínum tíma hætti stjórn Schlüters við það vegna þess að hún sá þá annmarka sem á því væru og núverandi forsætisráðherra Dana hefur ekki tekið þetta frv. aftur upp á þingi þannig að menn annars staðar hafa nú þegar staðar séð gallana á þeim breytingum sem hér eru til umræðu.
    Þá hlýtur maður að spyrja og fari frá útlöndum til Íslands: Hvar mun þetta bæta þjónustu ef að lögum verður? Hvar mun þjónustan verða betri? Mun hún t.d. verða betri í Stykkishólmi, Búðardal, Selfossi eða Hvolsvelli? Nei, hún verður ekki meiri eða betri þar nema síður væri. Hún mun verða meiri á Reykjavíkursvæðinu og eins og margoft hefur komið fram mun verða mikil aðsókn og er nú þegar mikil aðsókn hjá ýmsum stórmörkuðum í Reykjavík að fá fleiri lyfjaverslanir sem að sjálfsögðu eru ekki nauðsynlegar.

    Þá höldum við áfram: Hvernig verður að manna apótekin úti á landsbyggðinni þegar eitt apótek í Reykjavík er kannski að velta 700 millj. á meðan apótek úti á landi veltir 10--12 millj.? Það er mjög auðskiljanlegt mál og auðsætt að þangað munu menn leita þar sem er meira velta og það er enginn hvati í þessu frv. til þess að menn vinni sig upp eins og er í dag, enginn hvati. Í dag er það þannig að menn eru að vinna sig upp í þessi betri brauð úti á landi. En það er enginn hvati í þessu frv. til þess nema síður væri. Og menn hafa auðvitað horft til þess og séð ofsjónir yfir því að það séu einstaka menn hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem séu að stórgræða og það er eflaust alveg hárrétt að það eru margir lyfsalar í Reykjavík sem hafa afskaplega góðar tekjur. Og það er hægt að taka á þeim með ýmsu móti án þess að gereyðileggja það kerfi sem við höfum í dag. Að hluta til hefur verið tekið á þeim þar sem þeir greiða til Tryggingastofnunar og það er hægt að taka enn betur á þeim. Ég vil að það komi fram að mér finnst eðlilegt að það fjölgi eitthvað lyfjaverslunum í Reykjavík án þess að það verði algert öngþveiti og hér komi 20--30 nýjar lyfjaverslanir.
    Ég sagði áðan, hæstv. forseti, að menn hafi unnið sig upp í að komast í betri brauð og það sé enginn hvati til þess með frv. Ég held að hér muni verða erfðaveldi hvað varðar lyfsölu því að ef einhver kemst í verulega gott brauð hér í Reykjavík verða ættingjarnir náttúrlega að læra lyfjafræði og erfa síðan brauðið. Menn eru ekkert að vinna sig upp í þetta, menn bara erfa brauðið þannig að það eru ekki fagleg sjónarmið sem því ráða í framtíðinni hverjir erfa þessi brauð, heldur verða það bara peningarnir sem ráða. Þetta er málefni sem mér finnst... ( GunnS: Brauð?) Já, hv. þm. og prestur, þetta eru líka brauð og brauðin eru mismunandi góð hvort sem um prestsembætti eða lyfsölu er að ræða og þess vegna tala ég um brauð. (Gripið fram í.) Ég ætla nú að láta vera áframhaldandi frammíkall, en ég ætla aðeins að halda áfram yfir landsbyggðina, hvernig þetta kemur við landsbyggðina.
    Ég er hérna með bréf frá einum apótekara úti á landi hvernig hann sér framtíðina fyrir sér ef þetta frv. verður að lögum. Hann sér hana þannig fyrir sér, með leyfi forseta:
    ,,Lyfjaverð verður hærra á landsbyggðinni og það hæst á minnstu stöðum lengst frá Reykjavík.`` Og er það það sem við viljum?
    Það er búið að ákveða að það verði hámarksverð á lyfsölulyfjum en það er ekkert hámarksverð á lausasölulyfjum og menn verða náttúrlega að bæta sér það upp úti á landsbyggðinni með því að hækka lausasölulyfin. Það er ekkert öðruvísi.
    Hann segir í öðru lagi, með leyfi forseta:
    ,,Póstsendingar með lyf munu stóraukast, en það getur verið mjög hættulegt.
    3. Minnstu apótekin munu hætta og lyfjadreifing verða ríkisrekin og án allrar lyfjafræðiþjónustu. Slíkt þýðir að sjálfsögðu lakari þjónustu og aukna hættu á mistökum.
    4. Apótekarar í minnstu apótekunum munu margir flytja strax eftir samþykkt frv. á suðvesturhornið þar sem lyfsöluleyfi þeirra er ekki staðbundið eftir gildistöku frv.
    5. Málaferli verða vegna laga um yfirtöku apóteka sem apótekurum var gert skylt að kaupa en eru nú lítils virði.``
    Í framhaldi af því langar mig að skýra nánar hvað þarna er átt við. Tökum Siglufjörð sem dæmi. Þar var apótekurum gert að kaupa húsnæði undir lyfjaverslunina og þetta er náttúrlega eitt sem verður afar lítils virði ef þetta frv. verður að lögum.
    Að lokum ætla ég að vitna hér í þennan lyfsala úti á landi, þar sem hann segir:
    ,,Lyfjafræðingar hafa þjónað minnstu stöðum úti á landi í þeirri vissu að þeim yrði síðar umbunað þegar stærri apótek losnuðu. Nú er sá hvati ekki lengur fyrir hendi og einnig af þeirri ástæðu verður mjög erfitt að fá lyfjafræðinga út á land.
    Sjálfsagt finnst mörgum tímabært að minnka gróða stærstu apótekanna en slík tilraunastarfsemi með svo mikilvægan þátt í heilbrigðisþjónustu hlýtur að teljast vítaverð. Ég skora því á nefndarmenn að hugsa sig vel um og skoða öll gögn í málinu áður en þetta frv. verður samþykkt.``
    Þarna er apótekarinn að sjálfsögðu að mælast til þess að heilbr.- og trn. skoði þetta mjög vel og það munum við að sjálfsögðu gera.
    Fyrir hverja er þá þessi bætta þjónusta sem þetta frv. boðar? Satt að segja mun það bæta þjónustuna við ofætur á lyfjum. Það er stórt sagt en því miður er það satt. Þetta mun stórbæta þjónustuna við þá. Þeir sem eru sjúkir í lyf munu geta gengið kannski í sömu verslunina, á 3--4 staði og keypt sér lyf. Er það það sem við viljum? Hæstv. fyrrv. heilbrrh. taldi þetta ekki vera mikið mál, þetta væri, svo að ég vitni enn í þennan tittlingaskít, sem hér hefur verið til umfjöllunar, hann taldi þetta algeran tittlingaskít. En þetta er nefnilega stórmál vegna þess að ýmis lausasölulyf, lyf sem ekki þarf lyfseðil við, eru stórhættuleg lyf. Og menn munu sækjast mjög í þau og þau verða auglýst. Samkvæmt EES-samningnum má auglýsa lausasölulyf og ég er hérna með greinar úr nokkrum blöðum. T.d. er ég hérna með grein úr Politiken og eins frá Extrablaðinu þar sem einmitt er verið að fjalla um þennan vanda. Eftir að Danir fóru að auglýsa þessi lyf, þá er komið fram að það eru nokkur dauðsföll og mörg eitrunartilfelli einmitt af því að menn eru að hakka í sig þessi lyf, panodil, magnyl og koffínátin sem eru sjóveikitöflur, eru að hakka í sig þessi lyf og ýmist kála sér á því eða þá geta skemmt í sér lifrina varanlega. Og menn eru sem sé orðnir mjög uggandi yfir þessu og lyf í Bandaríkjunum sem ekki þarf lyfseðla við eru líka mjög ofnotuð, alls staðar þar sem þetta aukna frelsi er. Þess vegna finnst mér, þar sem við þurfum að taka það inn núna að

þessi lausasölulyf séu auglýst, að við eigum ekki að ganga lengra. Mér finnst að við eigum ekki að auka samkeppnina rétt á meðan við erum að sjá hvernig þetta gengur yfir okkur. Segjum svo að ef lyfsali sem er kominn í fjárhagsörðugleika vegna fjárfestinga og kannski lítils markaðar fer að auglýsa lyfin. Svo er komið að því að það fer að renna út hjá honum t.d. panodil. Þá auglýsir hann t.d. svona: Stórútsala á panodil, 1.000 töflur fyrir 100 kr. Þetta getur skeð, þetta skeður á stórútsölum og það er ekkert í þessu frv. sem lokar fyrir þetta. Það er verið að geropna þetta þannig að heilbrigðismarkmiðin í þessu frv. eru algerlega lögð fyrir róða.
    Það eru mjög margar spurningar sem vakna. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki að ég sé búin með tímann því ég er ekki farin að spyrja hæstv. ráðherra, en ég er hérna með 10 spurningar til hans. Ég verð að fá að koma aftur en ég verð að spyrja hann alla vega einnar spurningar og það er þessi spurning sem ég er að enda við að ræða um. Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af að meira framboð á lyfjum auki neysluna? Hinar spurningarnar verð ég að geyma þangað til í seinni ræðutíma mínum.