Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 15:51:27 (3647)


[15:51]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem ég var að leiðrétta hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur var það að hún sagði, ef ég man rétt, að hinum almennu lyfsölubúðum væri ekki heimilt að selja dýralyf. Þeim er það fullkomlega heimilt og hef ég margsinnis ávísað á dýralyf í venjulegri lyfsölubúð. En hins vegar hafa héraðsdýralæknar rétt til þess að selja lyf og það er rétt að þeir selja mest af dýralyfjum í landinu. Ég gerði held ég mjög skýrt grein fyrir því í minni ræðu að ég tel það óeðlilegt.
    Nóg um það. Ég er alveg sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að við eigum að vera íhaldssöm á það sem gott er og ég fagna því að við erum sammála um það. Ég á örugglega eftir að minna hana á þetta einhvern tímann. En lyfsölukerfið hjá okkur er bara ekki í lagi. Það er allt of dýrt og þess vegna þurfum við að gera á því breytingar.