Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 15:59:31 (3654)


[15:59]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessi seinasta ræða hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur var út af fyrir sig ekkert annað en fullyrðingar um afstöðu mína, hugmyndir og reynslu og hvar ég hafi verið staddur á landinu en þingmanninum til upplýsingar þá vil ég geta þess að ég hef starfað sem almennur dýralæknir í héruðum í þremur kjördæmum á landinu: Í Reykjaneskjördæmi, Suðurlandskjördæmi og í Austurlandskjördæmi. Auk þess hef ég starfað sem dýralæknir fisksjúkdóma með réttindi og skyldur héraðsdýralæknis, þar með talið lyfsöluleyfi, sem ég hef þó aldrei notað af eðlilegum orsökum, ef hún man eftir hvaða orð ég hafði um lyfsölu lækna í minni fyrstu ræðu. Sem dýralæknir fisksjúkdóma hafði ég með allt landið að gera og hef sennilega ávísað á lyf í fleiri apótekum og víðar um landið en flestir aðrir læknar sem ávísa á lyf hér á landi.