Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:05:53 (3656)


[16:05]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það hygg ég að öllum sé ljóst sem um þetta mál fjalla á Alþingi og annars staðar að þessi málaflokkur er flókinn og vandmeðfarinn og það eru til fleiri en ein lausn á dreifingarvanda lyfja, ef svo mætti að orði komast, fleiri lausnir en ein á því hvernig hægt er að dreifa lyfjum með skynsamlegum hætti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að gera því skóna í andsvari áðan að um þetta mál væri óeðlilegur ágreiningur í þingflokki sjálfstæðismanna. Hér hafa tveir hv. þm. Sjálfstfl. talað og gert grein fyrir sínum sjónarmiðum með mjög skilmerkilegum hætti og í máli þeirra hefur komið fram blæbrigðamunur. Annar þeirra vill ganga lengra en þetta frv. gerir ráð fyrir í að auka frjálsræði í þessum málaflokki. En sá sem hér talaði síðast boðar nokkra varúð í þessum efnum eins og ég tel reyndar að sé gert með þessu frv. almennt séð. Það er ekki verið að boða neinar byltingar í þessu frv. Það er verið að marka stefnu í frjálsræðisátt en það er ekki boðuð grundvallarbylting í þessu efni.
    Ég skildi hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur svo að hún væri að gera athugasemdir við það að þingmenn Sjálfstfl. hefðu komið á framfæri sínum athugasemdum og fyrirvörum. Hún lýsti því einhvern veginn svo að hún teldi að sá sem hér hefði talað fyrstur væri þar með að tala fyrir flokkinn í þessu efni en það er þannig þegar um er að ræða stjfrv. að þá talar ráðherrann sem mælir fyrir málinu fyrir báða stjórnarflokkana. Það er ekki sérstök ástæða fyrir einstaka þingmenn að taka til máls nema þeir hafi sérstök sjónarmið fram að færa eða athugasemdir eða fyrirvara sem þeir vilja gera grein fyrir þannig að allt er þetta mjög eðlilegt og ekki ástæða til að vera með athugasemdir í þeim dúr sem hv. þm. gerði.
    En hins vegar fyrst ég er kominn hér upp vildi ég gjarnan spyrja þennan hv. þm. vegna þess að það mátti skilja hennar ræðu áðan svo að hún vildi ekki gera breytingar á því fyrirkomulagi í smásöludreifingu lyfja sem fyrir hendi er hér á landi. Með öðrum orðum vil ég spyrja hv. þm. að því: Er það svo að fulltrúi Kvennalistans sem talaði við þessa umræðu vilji hafa það fyrirkomulag sem nú er í smásöludreifingu lyfja óbreytt? Vill hv. þm. að það verði áfram þannig hérlendis að menn geti ekki verslað með þessa vöru nema hafa til þess leyfi ráðherra og sérstakt bréf frá forseta Íslands?
    Ég tel að slíkt fyrirkomulag sé úrelt en það er einmitt meginbreytingin í þessu frv. að hverfa frá þessari skipan og taka upp rýmri möguleika fyrir lyfjafræðimenntað fólk til þess að stunda þessa verslun. Vitaskuld er það svo að menn verða að gera sér grein fyrir því að lyf eru ekki venjuleg verslunarvara vegna þess að til þess að fjalla um þau og meðhöndla þau þarf ákveðna faglega þekkingu og í sumum tilfellum getur verið um hættulega vöru að ræða. En auðvitað er það jafnframt svo, eins og fram hefur komið í umræðunni, að verslun með lyf er að því leyti til frábrugðin annarri verslun að sá sem greiðir fyrir vöruna er ekki endilega sá sem tekur á móti henni heldur er það þvert á móti þriðji aðili í mörgum tilfellum, þ.e.

hið opinbera vald, ríkissjóður, í gegnum Tryggingastofnun ríkisins eins og fram hefur komið. Þetta breytir auðvitað eðli þessara viðskipta en það breytir að mínum dómi ekki því að sú skipan sem hér hefur verið um úthlutun lyfsöluleyfa er úrelt orðin.
    Í frv. sem hér er til umræðu er það einkum tvennt sem verið er að leggja til, annars vegar að aðlaga lyfjaverslunina reglum hins Evrópska efnahagssvæðis en hins vegar að gera þessa breytingu í smásölunni. Það er ekki áskilnaður í sambandi við EES að við tökum upp hina síðari breytingu, það er ákvörðun sem Alþingi tekur á sínum eigin forsendum ef sú verður niðurstaðan að þetta frv. nær fram að ganga. Það er ekki áskilnaður um slíkt á hinu Evrópska efnahgssvæði og ég tel reyndar að sá sparnaður sem af þessu mun hljótast fyrir ríkissjóð sé vegna EES-ákvæðanna fyrst og fremst, þ.e. ekki síst möguleikanna sem skapast á samhliða innflutningi lyfja en aftur óvíst hvort ríkið mun spara sér útgjöld vegna breytinga í smásölufyrirkomulaginu.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi það einsýnt að þessi breyting mundi leiða til aukinnar neyslu og sölu á lyfjum og benti á að lyf hefðu sérstöðu eins og áfengi og tóbak og það væri einboðið að lyfjaneysla mundi aukast. Ég tel ekki að það hafi verið sýnt fram á það að það muni endilega gerast. Ég bendi hv. þm. á að undanfarin ár hefur áfengisverslunum, fyrst það dæmi var nefnt, fjölgað verulega á Íslandi en á sama tíma á undanförnum árum hefur áfengisneyslan í landinu farið minnkandi. Þannig að það er ekki endilega svo að þarna sé beint samband á milli heldur þvert á móti er hér dæmi um annað, þ.e. áfengi þar sem reynslan er allt önnur.
    Virðulegur forseti. Ég tel að um þessi mál verði menn að tala af ábyrgð og gætni vegna þess að þessi mál eru þess eðlis. Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt eins og sumir hafa gert í umræðunni að tala um nauðsyn þess að gera breytingar á þessu vegna þess að einhverjir örfáir menn hafi hagnast á lyfsölu. Það getur auðvitað ekki verið ástæða fyrir því að eðlilegt sé að gera skipulagsbreytingar eins og þær sem hér er verið að tala um. Þeir lyfsalar sem hafa hagnast hafa gert það, geri ég ráð fyrir, með heiðarlegum og eðlilegum hætti og það er engin ástæða fyrir þingmenn úr ræðustól Alþingis að vera að sjá ofsjónum yfir því.
    En ég tel sem sé að þetta gamla fyrirkomulag um úthlutun lyfsöluleyfa sé úrelt orðið og ekki í samræmi við nútímaviðskiptahætti en það breytir auðvitað ekki því að eftir sem áður á að viðhalda faglegu eftirliti með sama hætti og verið hefur og í engu að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru í þeim efnum.
    Þetta frv. sem nú er lagt fram í annað sinn, nokkuð breytt, fer ákveðna millileið í þessum efnum sem samkomulag hefur náðst um milli stjórnarflokkanna. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerði athugasemdir við það í sínu máli að það hefði ekki verið tekið nægilega mikið tillit til athugasemda sem bárust í umsögnum um frv. á síðasta þingi. Ég var í hópi nokkurra einstaklinga sem tóku að sér að fara yfir þær umsagnir og meta að hve miklu leyti unnt væri að taka tillit til þeirra í því frv. sem nú er lagt fram. Það var mjög margt í þessum umsögnum sem hefur verið tekið tillit til en það er auðvitað ekki hægt að taka tillit til breytingatillagna um grundvallaratriði ef þær ganga beinlínis gegn meginefni og tilgangi frv. Það voru auðvitað í nokkrum tilfellum athugasemdir um að það ætti ekki að stíga það skref að auka frelsi í smásölu með lyf en á það var hins vegar ekki fallist vegna þess að það er stefna þessa frv. að fara inn á þær brautir. Ég tel hins vegar að í frv. sé það gert af mikilli varúð og eitt af því sem var m.a. mikið rætt í mínum þingflokki og var rætt í umræðum um málið á Alþingi í fyrra og hefur vissulega verið áhyggjuefni er spurningin um þjónustuna á landsbyggðinni. Ég geri mér grein fyrir því að þar geta menn vissulega haft áhyggjur af því að hún kunni að minnka eða að fjölgun apóteka kunni að grafa undan starfsgrundvelli þeirra eða einhverra þeirra sem þar eru fyrir. Þess vegna hafi verið tekin inn í frv. ákvæði til þess að reyna að girða fyrir slíkt. Það má vel vera að þau ákvæði séu ófullkomin, þ.e. í byggðarlagi þar sem eru færri en 5.000 íbúar geti stjórn heilsugæslustöðvar beint því til ráðherra að hann synji um lyfsöluleyfi. Það má vel vera að þessi ákvæði séu ófullkomin en þá er ég alveg sannfærður um það að ef menn hafa betri tillögur í því efni sem þjóna betur þeim tilgangi sem þessum tillögum er ætlað að þjóna, þ.e. að vernda hag landsbyggðarinnar í þessu tilliti, þá mun þeim verða vel tekið. Ég er alveg sannfærður um það að hæstv. heilbrrh. mun taka vel öllum slíkum tillögum og það er þá eitt af því sem hv. þingnefnd mun væntanlega taka til athugunar, það er að skoða aðra möguleika í því efni.
    Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson, sagði um málsmeðferð í nefndinni, það er auðvitað mjög mikilvægt í svona máli að þingnefndin fari vel í saumana á öllum atriðum og öllum þáttum þessa frv. og hún hefur vissulega unnið sér í haginn vegna þess að í fyrra var unnið mikið starf í þessu og fjölmargar umsagnir komu til nefndarinnar sem síðan hefur verið unnið úr.
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé ekki verið að stíga stórt skref inn á veginn til glötunar í þessu máli, ég tel að hér sé verið að fara fetið í frjálsræðisátt í þessu efni og að það sé óeðlileg íhaldssemi hjá fólki sem lýsir sér í þeirri afstöðu að vilja halda núverandi skipan þessara mála algjörlega óbreyttri þannig að ráðherra geti ákveðið það eftir sem áður, hér eftir sem hingað til, hverjir fá leyfi til þess að versla með lyf o.s.frv. eins og við þekkjum núverandi skipulag. Ég tel að þetta sé ekki í takt við kröfur tímans, ég tel

að frv. sem við erum að fjalla um sé til bóta í þessu efni. Það kann vel að vera að þetta frv. sé ekki hið fullkomnasta eða eina leiðin sem til greina kemur þótt ég telji það til bóta en geng til þessa máls með opinn huga og er að sjálfsögðu fyrir mitt leyti tilbúinn að skoða alla möguleika og allar hugmyndir og ábendingar sem fram koma í þessu máli. Ef það er svo að á þessu frv. séu einhverjir gallar sem hafa farið fram hjá þeim sem að þessu hafa unnið þá skoða menn það, ef það kemur fram í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég hef ekki trú á öðru, eins og ég hef þegar sagt, en að heilbrrh. gangi líka til þessa verks með opinn huga að þessu leyti til og sé tilbúinn að hlusta á allar ábendingar í málinu.