Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:20:13 (3658)


[16:20]
     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið fyrri spurningu hv. þm. Það verk sem unnið var í sumar var að sjálfsögðu þess eðlis að þar var ekki um að ræða neina nýja stefnumótun í þessu máli, það var verið að fara yfir þær athugasemdir sem borist höfðu við tiltekið þingmál sem hér var lagt fram í fyrra og það var unnið upp úr þeim nýtt efni og brtt. sem voru felldar inn í þetta frv. áður en það var lagt fram á nýjan leik.
    Að því er varðar síðari spurningu hv. þm. þá er það svo í þessu frv. að það er gert ráð fyrir því að það sé sama verð eða sama hámarksverð á öllum lyfseðilsskyldum lyfjum en um lausasölulyfin gildir hins vegar að þar verður ekki opinber íhlutun með sama hætti og þar af leiðandi getur það verð verið breytilegt bæði innan Reykjavíkur og milli landshluta. Það er ekki hægt að svara því á neinn annan hátt en að fyrir fram veit maður ekki hvernig sú þróun verður að öðru leyti en því sem menn geta reynt að ráða í af almennum samkeppnislögmálum um það hvernig verðlag þróast á ýmsum vörutegundum. En ég held að það sé ekki hægt að svara þessari spurningu neitt nákvæmar en þetta.