Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:24:32 (3661)


[16:24]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. mun eitthvað hafa misskilið orð mín áðan því hann sagði að ég hefði haldið því fram að það væri óeðlilegur ágreiningur í þingflokki Sjálfstfl. um málið. Ég hygg að ég hafi aldrei sagt að ágreiningurinn þar væri nokkuð óeðlilegur, hann er ekki einu sinni óvenjulegur vegna þess að við erum vönust því að hér séu a.m.k. tvær ef ekki þrjár skoðanir uppi í Sjálfstfl. um hvaða mál sem vera skal. Það er sama hvort við erum að tala um landbúnaðarmálin, sjávarútvegsmálin eða heilbrigðismálin eða hvaða mál það eru, utanríkismálin, það eru alltaf tvær skoðanir uppi í Sjálfstfl. um hvert mál. Annars vegar höfum við frjálshyggjufólkið og hins vegar höfum við þá sem vilja ganga fram með meiri varúð. Þetta er gegnumgangandi hér og ég ætla ekki að segja að það sé neitt óeðlilegt við það og það er heldur ekkert óvenjulegt.
    Þingflokksformaðurinn spurði hvort ég væri að halda því fram og það væri mín skoðun að það ætti að hafa óbreytt fyrirkomulag í smásöluverslun lyfja. Ég get svarað því játandi að í grófum dráttum tel ég að svo eigi að vera. Ég get hins vegar alveg séð það fyrir mér að það ætti að vera kannski ákveðið markaðssvæði og það er búið að setja 5.000 sem viðmiðun í þetta frv. í ákveðnum tilvikum. Í Reykjavík og á stórum svæðum á þetta að vera algjörlega frjálst. Ég get alveg séð það fyrir mér að það verði einhvers konar markaðssvæði skilgreint vegna þess að ég lít ekki á verslun með lyf, smásölu með lyf, eins og venjulega smásöluverslun vegna þess að þetta er heilbrigðisþjónusta fyrst og fremst og þannig lít ég á málið. Það kann að vera íhaldssöm afstaða en það gerir þá ekkert til, ég hef íhaldssama afstöðu gagnvart áfengi, tóbaki og lyfjum, gagnvart þessum efnum og ég vil vísa þeim rökum á bug sem marklausum að þó að áfengisverslunum hafi fjölgað hafi neyslan ekki aukist. Þetta er rétt, en það eru engin rök í þessu máli vegna þess að það hefur ekki verið gefin frjáls samkeppni með áfengi, það hefur ekki verið gefið frjálst að auglýsa áfengi, það hefur heldur ekki verið gefin frjáls verðlagning á áfengi. Þannig að þetta eru engin rök og ekkert innlegg í þetta mál hér.