Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:50:26 (3668)


[16:50]
     Ingibjörg Pálmadóttir ( andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ofmat á þessu frelsi sem hæstv. ráðherra var að lýsa hérna áðan. Þetta er nefnilega gervifrelsi. Hvað er það t.d. í þessu frv. sem hér liggur fyrir sem getur komið í veg fyrir að Pharmaco taki allan markaðinn? Er það eitthvað sem lokar fyrir það? Það sé ég ekki. Þannig að þetta er nú mikið gervifrelsi.
    Það kann vel að vera að álagning lyfja sé vel í lögð. En hvað tryggir að þetta frv. breyti því? Hvað tryggir það í þessu frv. að álagning sé ekki vel í lögð? Það er hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum. Ég veit það. En samt sem áður: Hvað tryggir að ekki sé vel í lagt með álagninguna? Samkeppni. Fyrir hverja er þetta frv.? spurði ég. Og hæstv. ráðherra sagði: Sjúklingana. En það er ekki sama hvar sjúklingarnir búa hvort þeir njóta þessa frv. eður ei ef að lögum verður. Þannig er verið að skapa mjög mikið misræmi milli fólks eftir því hvar það býr á landinu. Þess vegna spurði ég: Fyrir hverja?