Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 16:52:02 (3669)


[16:52]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kem eiginlega aðallega upp til að spyrja ráðherra ákveðinnar spurningar sem ég gleymdi að spyrja í ræðum mínum áðan. Hún snýr að því hverjir hafi samið þetta frv. Ég rak nefnilega augun í það í athugasemdum við frv. að 18. ágúst 1991 var skipuð nefnd af þáv. heilbr.- og trmrh.

Sighvati Björgvinssyni til þess að athuga hugmyndir um breytingu á lyfjadreifingu. Í þeirri nefnd áttu m.a. sæti Brynjólfur Sigurðsson, prófessor í viðskiptafræði, sem var formaður nefndarinnar, og þar átti líka sæti Guðrún S. Eyjólfsdóttir, lyfjafræðingur hjá Lyfjaeftirliti ríkisins og lyfjaeftirlitsnefnd. Það er birt svolítið úr nefndarálitinu með frv. og þar kemur fram að nefndin sér ýmsa annmarka á þessu svokallaða frelsi sem hér er verið að koma á. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ætla verður að auknu frelsi í lyfjasölu fylgi fjölgun útsölustaða og þar með greiðari aðgangur að lyfjum sem að öðru jöfnu leiðir til hærri heildarkostnaðar``, segir í áliti frá nefndinni.
    Hér er ég með grein eftir Brynjólf Sigurðsson sem heitir ,,Sérkenni lyfjamarkaðarins``. Þar sér hann marga vankanta á þessu svokallaða frelsi sem er verið að koma á. Við fengum umsögn um frv. í vor frá Guðrúnu Eyjólfsdóttur, forstöðumanni Lyfjaeftirlits ríkisins. Hún sér líka marga vankanta á frv. og segir, með leyfi forseta:
    ,,Af frv. að dæma virðist sem eitt meginmarkmið þess sé að auka frelsi lyfjafræðinga til að stofna til reksturs apóteka og því væri eðlilegt að það kæmi fyrst fram í 1. gr. frv. þar sem markmiðin eru talin.``
    Hún segir með öðrum orðum: Af hverju ekki bara stíga skrefið til fulls og segja: Þetta er markmiðið með frv. Hún varar líka við því að þetta muni ekki lækka kostnað þjóðarinnar vegna lyfja. Það fólk sem sat í þessari nefnd og er sérfræðingar í þessum málum og búið að rannsaka þetta ofan í kjölinn varar við þessu. Ég veit ekki alveg hver hefur samið þetta frv. Af hverju voru ekki notaðir slíkir sérfræðingar m.a. til að semja nýtt frv. til lyfjalaga? Hverjir sömdu frv., virðulegi ráðherra?