Lyfjalög

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:09:34 (3675)


[17:09]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál. Ég held að flest sé komið fram sem þarf að koma fram við 1. umr. þessa máls. Við munum auðvitað taka þetta fyrir í heilbr.- og trn. Þó vil ég vegna þess að það hefur verið mjög neikvæð umræða um þetta frv. koma að einu jákvæðu atriði í frv. Mér finnst að umræðan þurfi að enda þannig. Það er að sjúklingar sem liggja á sjúkrahúsum geta keypt lyf um leið og þeir útskrifast eða eru göngudeildarsjúklingar. Það tel ég jákvætt og hagræði fyrir sjúklingana af því að ég spurði hæstv. heilbrrh. þráfaldlega eftir því áðan. Ég tel það mikið hagræði fyrir sjúklingana. En það er önnur spurning sem vaknar í leiðinni: Hvernig stenst þetta nýsamþykkt samkeppnislög? Í nýsamþykktum samkeppnislögum má það ekki skarast að ríki og einstaklingar séu í samkeppni. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki skoðað það mjög gaumgæfilega.
    Svo er það önnur spurning sem mig langaði að leggja fyrir hæstv. ráðherra. Á ráðstefnu Lyfjafræðingafélagsins fyrir ekki allöngu var Sighvatur Björgvinsson, þáv. heilbrrh., spurður að því hvar í heiminum aukið frelsi varðandi lyfjadreifingu og sölu hafi komið neytendum til góða. Og svar hans var neikvætt. Og nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi það á takteinum hvort þetta aukna frelsi hafi einhvers staðar komið neytendum til góða.