Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:18:39 (3679)


[17:18]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í megindráttum felur frv. í sér þrjár breytingar sem ekki eru efnislega tengdar.
    1. Varsla og ávöxtun Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna.
    2. Í 3. og 4. gr. frv. er lagt til að heimilt verði að veita lán til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum þegar ábúendur búa við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu.
    3. 5. gr. frv. felur í sér nýjar heimildir til útgreiðslu á skyldusparnaðarreikningum.
    Mun ég nú gera nánar grein fyrir helstu efnisatriðum frv. en að öðru leyti vísast til ítarlegra athugasemda með því.
    Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 48. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins skal Seðlabanki Íslands annast vörslu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í 1. og 2. gr. frv. er lagt til að húsnæðismálastjórn verði heimilt að taka ákvörðun um að sjóðirnir verði að nokkru leyti eða öllu varðveittir á annan hátt. Þessi breyting er í samræmi við þau viðhorf sem átt hafa vaxandi fylgi að fagna að ekki sé æskilegt að lögbinda nákvæmlega hvar opinberir sjóðir skuli varðveittir og ávaxtaðir heldur skuli um það ríkja visst frelsi þó þannig að öryggi sé ávallt í fyrirrúmi. Í samræmi við þessi viðhorf er stjórnum ýmissa opinberra sjóða falið að taka ákvarðanir um vörslu og ávöxtun fjár og má þar nefna Atvinnuleysistryggingasjóð til samanburðar. Að auki skal á það bent að Ríkisendurskoðun hefur gert athugun á vaxtakjörum sjóðanna hjá Seðlabanka Íslands. Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að sjóðirnir njóti eftir því sem hægt er að bera það saman svipaðra vaxtakjara hjá bankanum og þeir mundu njóta hjá öðrum innlánsstofnunum í því formi sem þeir eru varðveittir nú en æskilegt sé að sjóðirnir hafi fleiri valmöguleika varðandi vörslu og ávöxtun en nú er þannig að þeir geti notið bestu kjara sem í boði eru á hverjum tíma.
    Samkvæmt 1. og 2. gr. frv. er það forsenda fyrir vörslu annars staðar en í Seðlabankanum að það sé talið auka möguleika sjóðanna á ávöxtun án þess að það hafi í för með sér áhættu fyrir þá. Áskilið er að húsnæðismálastjórn skuli leita samþykkis félmrh. fyrir slíkri ákvörðun. Enn fremur er í greinunum tekið fram að þess skuli gætt að sjóðirnir hafi jafnan nægilega mikið laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að stofnaður verði nýr lánaflokkur við Byggingarsjóð verkamanna sem veitir sveitarfélögum lán til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum. Í 4. gr. er kveðið nánar á um lánafyrirkomulagið.
    Félagslega íbúðakerfið byggir á því að íbúðir séu innleystar af framkvæmdaraðila og þeim sé úthlutað aftur til kaupenda sem fullnægja þeim skilyrðum sem lög um Húsnæðisstofnun ríkisins kveða á um til að eiga rétt á að festa kaup á félagslegri íbúð. Þetta fyrirkomulag getur átt við um lögbýli þar sem íbúðarhúsnæði á lögbýlum er ekki sjálfstæð eining heldur hluti jarðarinnar og þar sem fáir hafa forsendu til að setjast að á lögbýlum. Þetta hefur hins vegar í för með sér mismunun gagnvart þeim sem búa í sveitum sem gengur gegn markmiði félagslega íbúðakerfisins eins og það er skilgreint í 35. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Einkum er það bagalegt varðandi heilsuspillandi húsnæði sem í ljós hefur komið að leynist í sveitum landsins en með lögum nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir, voru sérstakar lánveitingar til útrýmingar á slíku húsnæði felldar niður. Þetta hefur ekki valdið vandkvæðum í þéttbýli þar sem kostur er á félagslegum íbúðum en í sveitum er ekki um nein úrræði að ræða ef ábúendur fullnægja ekki skilyrðum til að fá lán í gegnum húsbréfakerfið.
    Á þetta er bent í skýrslu nefndar sem ég skipaði til að vinna að því að leggja mat á reynsluna af lögum um félagslegar íbúðir en skýrsla um þá úttekt var gefin út í maí á þessu ári. Ákvæði 3. og 4. gr. byggja á tillögum nefndarinnar. Það felst í ákvæðunum að heimilt verði að veita lán til byggingar félagslegra íbúða á lögbýlum til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Vegna sérstöðu lögbýla er lagt til að sveitarfélag sé lántakandi og beri ábyrgð gagnvart Byggingarsjóði verkamanna en það endurláni síðan ábúanda lánið.
    Þegar sveitarfélag sækir um lán til Byggingarsjóðs verkamanna verða skv. 1. mgr. 4. gr. frv. að liggja fyrir upplýsingar um að ábúandi búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægi almennum skilyrðum 64. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins til kaupa á félagslegri íbúð. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið hafi umsjón með byggingarframkvæmdum og almennar reglur laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um byggingarkostnað, gerð húsnæðis, úttektir og uppgjöf við byggingu félagslegra íbúða eigi við.
    Í 2. mgr. 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að sveitarfélagið fái í upphafi framkvæmdalán til að standa að framkvæmdum svo sem tíðkast almennt við byggingu félagslegra íbúða. Þegar framkvæmdum er lokið og kostnaður liggur fyrir er gert ráð fyrir að framkvændalánið verði gert upp með 90% láni til sveitarfélagsins með sömu kjörum og gilda um önnur lán til félagslegra eignaríbúða. Eignir og ábyrgðir sveitarfélgsins verði til tryggingar láninu. Sveitarfélagið selji síðan ábúanda jarðarinnar íbúðina og veiti honum lán að sömu fjárhæð og á sömu kjörum og eiga við um lán úr Byggingarsjóði verkamanna til félagslegra eignaríbúða.
    Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. hafa sveitarfélög hvorki kaupskyldu né forkaupsrétt að íbúðum sem byggðar verða á grundvelli greinarinnar enda eru ekki fyrir hendi forsendur til þess svo sem áður hefur verið vikið að. Ef vanskil verða á láni Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélags eða íbúðum er ráðstafað til kaupenda sem ekki fullnægja skilyrðum laga um Húsnæðisstofnun til kaupa á félagslegri íbúð er Byggingarsjóði verkamanna skv. 4. mgr. 4. gr. frv. heimilt að gjaldfella lán sitt til sveitarfélagsins. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að þeir sem fullnægja skilyrðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins til kaupa á félagslegri íbúð geti notið betri kjara við kaup á þessum íbúðum en aðrir þar sem lán verði þá ekki gjaldfellt heldur eigi kaupandi þess kost að yfirtaka lán fyrir ábúanda frá sveitarfélagi.
    Með lögum nr. 61 frá 19. maí 1990, en það er síðasta efnisatriði þessa frv., voru ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga felld úr gildi. Þess í stað kom ákvæði til bráðabirgða sem kvað á um heimildir til að greiða út af skyldusparnaðarreikningnum. Við samningu þess var leitast við að fara milliveg. Niðurstaðan skyldi í senn vera sanngjörn í garð reikningseigenda og taka mið af því útstreymi fjár úr Byggingarsjóði ríkisins er yrði ekki sjóðnum ofviða Samkvæmt a- og b-lið þess skyldu innstæður sem voru 30 þús. kr. eða lægri greiddar eigendum án umsókna innan 6 mánaða frá gildistöku laganna. Eigendur hærri innstæðna skyldu eiga rétt á að fá þær greiddar þegar þeir næðu 26 ára aldri, hefðu byggt eða keypt íbúð til eigin nota eða hefðu barn á framfæri. Sama rétt skyldu 75% öryrkjar hafa og námsmenn sem stundað hafa nám samfellt í 6 mánuði. Námsmenn skyldu einungis eiga rétt á greiðslu út árið 1993.
    Samkvæmt c-lið bráðabirgðaákvæðisins eiga allar innstæður sem eftir standa þann 1. jan. árið 2000 að greiðast út. Við framkvæmd þessa ákvæðis hefur komið í ljós að í því er ekki tekið nægjanlegt tillit til versnandi afkomu þjóðarinnar. Fjölmargir reikningseigendur hafa kvartað undan því að ákvæðið sé of þröngt og í því sé ekki tekið tillit til fjárhagsvanda, svo sem vegna atvinnuleysis og langvarandi veikinda. Námsmenn hafa enn fremur kvartað undan því að ákvæðið sé of ósveigjanlegt og komi aftan að námsáætlun þeirra. Þar sem sýnt þykir að framangreindar athugasemdir eigi við rök að styðjast þykir sjálfsagt réttlætismál að leggja fram tillögu til breytinga á ákvæðinu.
    Við samningu ákvæðisins hefur verið tekið mið af því að þær breytingar sem það hefur í för með sér feli ekki í sér verulega mikið aukið vinnuálag fyrir starfsfólk Húsnæðisstofnunar og veðdeildar vegna matskenndra heimilda en eftir gildistöku laga nr. 61/1993 var starfsfólki sem hafði umsjón með skyldusparnaðarreikningum fækkað verulega.
    Í samræmi við framansagt felur tillagan í sér nýjar heimildir til útgreiðslu skyldusparnaðar vegna atvinnuleysis og langvarandi veikinda. Jafnframt eru reglur um útgreiðslu til námsfólks rýmkaðar að því leyti að heimildin einskorðast ekki við árið 1993. Það er erfitt að áætla um hve stóran hóp er að ræða sem getur fengið sinn skyldusparnað greiddan út samkvæmt þessu ákvæði ef að lögum verður en Húsnæðisstofnun ríkisins áætlar að um sé að ræða a.m.k. 400 einstaklinga og þá mest atvinnulausa.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga þar sem það felur í sér sjálfsagðar og sanngjarnar endurbætur á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hafa, eins og fram kemur í áliti fjmrn., ekki í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.