Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 17:54:51 (3684)


[17:46]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður minntist orða hæstv. forsrh. um það að hér hefði verið lætt í gegnum þingið frv. fyrir rúmlega ári og velti vöngum í framhaldi af þeim ummælum sem eðlilegt er. Mér verður þetta umhugsunarefni í ljósi þess að við erum hér að ræða þetta mál. Einungis tveir þingmenn hafa tekið til máls, mjög fáir eru viðstaddir umræðuna og enginn ráðherra og nú er meira að segja sjálfur framsögumaður málsins, hæstv. félmrh., horfinn á braut og hlýðir ekki á umræðu a.m.k. þessa stundina.
    ( Forseti (GunnS) : Ef forseti má trufla ræðu hv. þm. til þess að skýra það út fyrir hv. þm. og öðrum viðstöddum hv. þm. að hæstv. félmrh. er mjög nálægur og reikna ég með að hann heyri nánast hvert orð. Hann er að sinna áríðandi samtali í 1--2 mínútur og verður í salnum eftir örskamma stund.)
    Ég þakka forseta fyrir þessar upplýsingar. Ég sá að vísu hæstv. félmrh. fyrir framan myndavélar áðan og ég er eiginlega mjög efins um að ráðherrann heyri nokkuð það sem ég hef fram að færa í umræðunni meðan svo er ástatt að hún stendur fyrir framan myndavélar og talar upp í míkrafón á annarri hæð í húsinu. Ég spyr því, forseti, hvort það væri ekki bara rétt úr því að annir eru svona miklar hjá hæstv. ráðherra að geyma þessa umræðu um stund þar til hæstv. ráðherra sér sér fært að verða hér viðstaddur.
     (Forseti (GunnS) : Forseti telur nú eðlilegt að halda þessum umræðum áfram. Hæstv. félmrh. verður ekki lengi frá salnum en hlýtur að vera alveg að koma að vörmu spori. Ef hv. þm. vill sérstaklega óska þess að við gerum örstutt hlé í eina til tvær, þrjár mínútur á meðan félmrh. er á leiðinni til okkar þá verður forseti við því.)
    Ég þakka forseta boðið. Ég hygg að það mundi greiða fyrir umræðunni að ráðherra gæti heyrt mál mitt samfellt þannig að ég þyrfti ekki að endurtaka hluta af því eða bera fram fyrirspurnir á nýjan leik. Ég mundi því vilja þiggja þetta boð forseta og gera hlé á ræðu minni.
    ( Forseti (GunnS) : Þá verður fundi fram haldið og hv. 5. þm. Vestf. heldur áfram ræðu sinni.)
    Virðulegur forseti. Það er rétt að vinda sér beint að frv. og spurningum sem vaknað hafa við lestur á því. Ég vil fyrst velta upp fyrstu tveimur greinum frv. sem hafa þann tilgang samkvæmt greinargerð og texta greinanna að veita heimild til þess að ávaxta Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, það fé sem í þessum sjóðum kann að vera á hverjum tíma, annars staðar en í Seðlabanka Íslands. Mér finnst þær skýringar sem gefnar eru í frv. um ástæðu þess að þetta er lagt til vera það fátæklegar að ástæða sé til að ganga eftir því og fá frekari skýringar hvers vegna þetta er talið nauðsynlegt. Það segir í greinargerð með þessum greinum til skýringar á þessari tillögu að æskilegt sé að sjóðirnir hafi fleiri valmöguleika varðandi vörslu og ávöxtun en nú er. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra frekari skýringa á þessu, hvaða tilefni það er sem er þess valdandi að þetta er talið nauðsynlegt. Hefur Seðlabankinn verið þannig viðskiptis í þessu máli að það sé mat ráðherra að hann hafi hlunnfarið stofnunina hvað ávöxtun peninganna varðar sem hann geymir fyrir Húsnæðisstofnun?
    Almennt vil ég segja um þetta atriði að af eðli máls er það ljóst að byggingarsjóðirnir geta ekki haft mikið fé umleikis til langs tíma. Það er þeirra eðli að lána út peninga en ekki að geyma þá þannig

að ef um það er að ræða að þeim safnast sjóðir sem þeir þurfa ekki að lána út á næstu mánuðum eða svo, þá ber þeim einfaldlega að draga úr lántökum. Þá þurfa þeir minna lánsfé en gert hefur verið ráð fyrir ef upp safnast verulegar innstæður þannig að eðli málsins samkvæmt er ekki um að ræða að þarna séu geymdir miklir fjármunir í langan tíma. Bara það atriði gerir strax í mínum huga ákveðið spurningarmerki við þörfina á því að fara út í einhvers konar markaðsvæðingu eða samkeppni milli innlánsstofnana um að ávaxta þetta skammtímafjármagn stofnunarinnar. Sérstaklega finnst mér spurning við þetta atriði þegar ég sé í greinargerðinni að það er talið að féð hafi verið sæmilega ávaxtað hjá Seðlabankanum fram til þessa þannig að það hlýtur að vera einhver ástæða. Hún hefur ekki komið fram og ég tel að hæstv. ráðherra verði að gera þinginu grein fyrir því hver ástæðan er.
    Þá vil ég líka minna á að það var gerð breyting á lögunum í fyrra að frumkvæði ráðherra þar sem m.a. var lögð mikil áhersla á það að opna lagaheimild til þess að sameina sjóðina, samanber núverandi 3. gr. laganna. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvort til standi að nýta þá heimild. Ef það er ekki, til hvers var þá verið að sækja þessa heimild ef þarf svo að fá aðra lagaheimild í aðra átt til þess að gæta hagsmuna sjóðsins?
    Ég get tekið undir það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl. að það er dálítið skipulagslaust sem lagðar er fyrir þingið lagabreytingar á þessum lagabálki. Það eru tekin ákveðin atriði út úr eins og í fyrra, knúnar fram breytingar á lögunum til að mæta þeim, önnur atriði algerlega skilin eftir og síðan er komið með hluta af þeim á næsta ári og jafnvel lagt til að breyta sömu atriðum núna og menn voru að breyta í fyrra þannig að mér finnst þetta vera dálítið handahófskennt satt að segja og tel að menn hefðu gjarnan mátt vanda sig meira í fyrra, bæði við að semja frv. og við afgreiðslu þess í þinginu.
    Ég get ekki látið hjá líða að láta það koma fram sem ég hef svo sem einhvern tíma sagt áður að ég hef verulegar áhyggjur af því hversu mjög hallar á þingið í samskiptum við framkvæmdarvaldið. Mér þykir sem framkvæmdarvaldið hafi um of gengið yfir þingmenn í að knýja í gegnum þingnefndir og umræður mál án þess að þau væru nægjanlega ígrunduð. Að hluta til er þetta frv. lagfæring á frv. í fyrra sem menn hefðu getað sparað sér með því að hugsa málið kannski eilítið betur áður en það var afgreitt.
    Þá er annað atriði sem er í 3. gr. frv. Það er að opna nýjan lánaflokk í Byggingarsjóði verkamanna til sveitarfélaga sem síðan eiga að byggja félagslegar eignaríbúðir á lögbýlum. Mér fannst hæstv. ráðherra vera óþarflega hógvær þegar hann lét þess ekki getið að fyrir þinginu liggur frv. sem tekur á þessu efni að hluta til ef ekki að meginhluta til og það frv. var líka lagt fram í fyrra og 1. flm. þess er hv. 4. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir. Fyrir utan að ráðherra hefði gjarnan mátt geta þess að þetta frv. væri til og hefði verið hér lagt fram og er þskj. 4, þá fannst mér að ráðherrann hefði gjarnan mátt greina þinginu frá því hver munurinn er á tillögu í stjfrv., 3. gr. og svo aftur því sem er á þskj. 4. Mér sýnist að þessar tvær greinar gætu í sjálfu sér staðið hvor fyrir sig, en ég spyr hæstv. ráðherra: Er það í hans huga þannig hugsað að 3. gr. frv., sem við erum að ræða núna, eigi að koma fyllilega í stað þeirrar tillögu sem er á þskj. 4? Ég held að við verðum að hafa þetta nokkuð ljóst, hvernig ráðherrann hugsar málið, því að auðvitað hjálpar það okkur til við að vinna málið í þingnefnd. En ég verð að segja að eins og ég skil þskj. 4, þá er um að ræða opna heimild til að veita lán til endurbóta og útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði úr Byggingarsjóði ríkisins og sú heimild nýtist hvort heldur er á lögbýlum eða annars staðar. Ég vil því skilja málið þannig --- eða það er minn skilningur á því --- að þarna sé um tvær tillögur að ræða sem ekki gangi hvor gegn annarri af því að tillaga í 3. gr. frv. félmrh. eigi einungis við um félagslegar íbúðir eða lánveitingar úr Byggingarsjóði verkamanna.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að það sé enginn misskilningur um þetta. Í mínum huga er það þannig að það sé bæði rétt og skylt að hafa heimild úr báðum sjóðum, því að auðvitað getur verið að fólk sem býr á lögbýlum sé yfir tekjumörkum og eignarmörkum og þess háttar hlutum og falli ekki undir félagslega íbúðakerfið og lánveitingar úr Byggingarsjóði verkamanna og þá er auðvitað eðlilegt að hafa einhvern annan farveg. Það getur sótt sér lánveitingu úr Byggingarsjóði ríkisins rétt eins og hver annar sem er yfir mörkunum. Ég vildi nú bara nefna þetta til þess að það lægi ljóst fyrir hver skilningur væri á þessu. Minn skilningur er þessi, að það sé um tvær ólíkar tillögur að ræða þannig að önnur þurfi ekki að útiloka hina.
    Þá spyr ég um 4. gr. sem er frekari útlistun á þessari nýjung sem þarna er lögð til í frv. að opna sérstakan lánaflokk sem á að vera til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum. Þá er fyrsta spurningin sem vaknar, sérstaklega af því að það er tekið fram í greinargerð: Hvar í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er að finna ákvæði sem gera það að verkum að það er ekki unnt að lána til íbúða á lögbýlum? Ég hef verið að skoða þennan lagabálk og ég finn hvergi í lögunum nein ákvæði um það sem segja að þessi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins gildi um Ísland mínus bújarðir. Ég væri þakklátur ráðherranum ef hann gæti bent mér á það lagaákvæði sem takmarkar gildissvið þessara laga ef þarna farið með staðreyndir eftir bestu vitund. Það hljóta að vera til tilvísanir um það hvaða lagaákvæði það eru sem gera þetta að verkum.
    Þá kemur næsta spurning: Er það svo að það er einungis heimilt að lána til einnar íbúðar á viðkomandi lögbýli samkvæmt frumvarpstextanum? Við þekkjum dæmi þess að menn geta búið félagsbúi á

jörð. Það geta verið tvær, þrjár eða jafnvel fleiri fjölskyldur og þar af leiðandi jafnmargar íbúðir. Er hugmyndin í 4. gr. að takmarka lánamöguleikana einungis við eina íbúð eða fleiri? Er það opið?
    Þá spyr ég líka: Er einungis átt við að sá geti fengið lán sem er ábúandi jarðarinnar? En svo má skilja ef maður les greinargerðina neðst á bls. 3, þar sem segir, með leyfi forseta: ,, . . .  verða samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. frv. að liggja fyrir upplýsingar um að ábúandi búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægi skilyrðum 64. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.``
    Þarna kemur skýrt fram í greinargerðinni að það er einungis átt við ábúanda jarðarinnar og hann verður þá að búa við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og uppfylla skilyrði 64. gr. En ef við lesum lagatextann í þessari tilvitnuðu 4. gr., þá er ekki hægt að skilja hann svo, en þar segir, með leyfi forseta: ,, . . .  enda hafi verið sýnt fram á að væntanlegir kaupendur búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægi skilyrðum 64. gr. laganna til kaupa á félagslegri eignaríbúð.``
    Ekkert talað um ábúanda, að það sé skilyrði sem þurfi að uppfylla. Þannig að mér finnst lagatextinn ekki segja það sem greinargerðin segir.
    Þá spyr ég líka: Af hverju er talið nauðsynlegt að íbúðirnar séu eingöngu eignaríbúðir? Af hverju er ekki heimilt að hafa þetta leiguíbúðir á jörðinni? Hvað er í veginum fyrir því að um leiguíbúð sé að ræða? (Gripið fram í.) Sveitarfélagsins. Ég sé í fljótu bragði ekki neitt sem mælir gegn því en ég vil þó taka fram að þessi lagatexti og skýringar á honum eru nokkuð flóknar. Ég viðurkenni það fúslega að ég þarf að velta vöngum betur yfir þessum lagatexta en hef þó ekki við yfirlestur á frv. séð neitt sem hindraði það sérstaklega miðað við hvernig þetta er sett upp.
    Þá spyr ég líka um 4. gr.: Hvers vegna er það skilyrði sett að lántakandi verði að vera sveitarfélagið? Hvers vegna er það sett sem skilyrði að sveitarfélagið ábyrgist endurgreiðslu lánanna í öllum eignum sínum og ábyrgðum? Þetta eru harðari skilmálar samkvæmt lagatextanum en er í almenna lagatextanum á sveitarfélög sem geta verið framkvæmdaraðilar og eru það yfirleitt á flestu félagslegu íbúðarhúsnæði um land allt. Vitna ég t.d. til 58. gr. laganna um framkvæmdalán og 67. gr. Þar eru t.d. sérstaklega tekið fram að allar eignir sveitarfélaga gangi til tryggingar á endurgreiðslu þessara lána hvort sem um er að ræða framkvæmdalán eða íbúðalán. Mér finnst því vanta skýringar á þessu.
    Síðan spyr ég hæstv. félmrh.: Ef ábúandinn eða sá sem á að geta fengið þessi lán á lögbýlinu er yfir tekjumörkum eða eignamörkum eða uppfyllir ekki ákvæði 64. gr., hvaða lánamöguleika á hann frá Húsnæðisstofnun ríkisins? Er hægt að fá húsbréfalán eða er hægt að fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins? Og ef það eru ekki möguleikar á lánafyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins eða húsbréfadeildinni af hverju á einvörðungu að takmarka lánveitingar til lögbýla við þá sem eru undir tilteknum tekjumörkum?
    Síðan eru ákveðnir annmarkar á þessu sem ég sé strax og getur komið upp, við skulum svo sem ekki segja að verði en við skulum ekki útiloka það af því að þetta er hugsað þannig að Húsnæðisstofnun ætlar að lána sveitarfélaginu og sveitarfélagið ætlar síðan að endurlána þeim sem býr í íbúðinni og á að kaupa hana, að ef sveitarfélagið stendur ekki við sínar skuldbindingar gagnvart Húsnæðisstofnun eða Byggingarsjóði verkamanna, þ.e. sveitarfélagið borgar ekki af lánunum, þá er stofnuninni heimilt að gjaldfella lánin en þá bitnar málið á kaupandanum sem kannski hefur staðið í fullum skilum gagnvart sveitarfélaginu.
    Í 3. mgr. 4. gr. segir að vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélaganna eigi að endurskoðast að liðnum 6 árum og breytast til samræmis við vexti á almennum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins o.s.frv. Þessir vextir breytast ef sveitarfélagið uppfyllir ekki þá lagaskyldu að sýna fram á að sá sem býr í íbúðinni eigi rétt á að búa við óbreytta vexti. Þegar sveitarfélagið stendur sig ekki í verkinu sem auðvitað getur gerst, þá bitnar það á þeim sem býr í íbúðinni og ræður ekki neinu um það. Það gæti verið að viðkomandi væri þannig tekjulega séð að hann ætti rétt á að vera áfram með 2,4% vexti en sveitarfélagið hafi vanrækt það að senda tilskilin gögn til stofnunarinnar og þá hækka vextir eftir sem áður.