Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 18:22:52 (3686)

[18:22]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisverð umræða sem hér á sér stað og afar umhugsunarvert mál sem er á dagskrá eins og fram hefur komið í máli ræðumanna sem eru við umræðuna.
    Ég hef ekki mjög miklu við þetta að bæta en þó vill svo til að ég hef nokkra reynslu af því að vinna í hinu félagslega húsnæðiskerfi. Bæði átti ég sæti í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík um nokkurra ára skeið og eins vann ég í þeirri nefnd sem endurskoðaði lögin um félagslega húsnæðiskerfið fyrir nokkrum árum síðan. Eins og við mátti búast komu upp ýmis atriði sem þurfti að lagfæra eftir þá breytingu og það hefur verið tekið á því smám saman.
    Mér þykir mjög athyglisverð sú tillaga sem fram kemur í frv. um að veita heimild til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði í sveitum landsins þó, eins og fram hefur komið, þurfi að skoða það rækilega hvernig að því verði staðið. En vegna þess sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur, var staðan sú þegar lögin voru endurskoðuð síðast að það voru orðin svo örfá dæmi um heilsuspillandi húsnæði, umsóknirnar voru orðnar svo fáar, að það var ekki talin þörf á því að þessi lánaflokkur yrði áfram til staðar. Síðan hefur komið í ljós vegna þess hvernig menn hafa horft á þetta félagslega kerfi sem fyrst og fremst þjónustu við íbúa þéttbýlisins að mönnum hefur hreinlega yfirsést að það þyrfti einhverjar aðgerðir til þess að bæta húsnæði í sveitum. Þar af leiðandi get ég ekki annað en tekið undir þessa tillögu og mér finnst það vera hið besta mál að aðstoða fólk í sveitum landsins til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði enda uppfylli ábúendur eða leiguliðar þau skilyrði sem sett eru í 64. gr. laganna um Húnæðisstofnun ríkisins og ákvæðum ábúðarlaga.
    Vegna þeirra spurninga sem hér komu fram áðan í máli hv. þm. Kristins Gunnarssonar þá þarf auðvitað að skoða það í samhengi hvaða lög gilda um ábúendur, um lögbýli og þá sérstöku stöðu sem eigendur jarða eru í. Þetta getur auðvitað rekist á en í 64. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins eru talin upp þau skilyrði sem fólk þarf að uppfylla til þess að eiga rétt á félagslegri íbúð en síðan segir í lögunum: ,,Heimilt er að víkja frá ákvæðum a-liðar þegar um er að ræða umsækjendur sem búa við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu.`` Það er auðvitað þetta sem verið er að vísa til en það fólk sem hér um ræðir, þarf að uppfylla önnur skilyrði, þ.e. um tekjur. Ef eignin eða hluti eignarinnar telst vera heilsuspillandi húsnæði dugar það til þess að þeir teljast falla undir ákvæði laganna. Eins og ég segi finnst mér þetta vera athyglisvert mál og ég efa ekki að þörfin er einhver.

    Eins og flestir þingmenn minnast var hér á árum áður oft mikil umræða um húsnæðismál og það húsnæðiskerfi sem við búum við en af ýmsum ástæðum hefur dregið mjög úr þeirri umræðu og það er umhugsunarvert hvers vegna það er. Höfum við minni áhyggjur af þessum málum eða er ástandið miklu betra en var eða hvað hefur gerst? Mér datt einmitt í hug þegar ég var að hlusta á umræðuna að það veitti auðvitað ekkert af því að við á Alþingi færum yfirferð yfir húsnæðismálin og reyndum svolítið að átta okkur á því hver staðan er núna. Hver hefur þróunin verið á undanförnum árum? Ekki síst þurfum við að fá svör við spurningum eins og þeim hver þörfin er fyrir félagslegt húsnæði í landinu. Og sú efnahagsþróun sem við höfum horft upp á á undanförnum árum segir mér það að sú þörf hlýtur að vera vaxandi. Þá er spurningin sú hvort þau skilyrði sem kveðið er á í núgildandi lögum séu hugsanlega of þröng eða hversu langt það fjármagn sem veitt er til hins félagslega húsnæðiskerfis dugar.
    Það vaknar líka sú spurning: Hver hefur þróun nýbygginga verið á undanförnum árum? Ég hef einfaldlega ekki séð neinar tölur yfir þetta. Menn hafa verið að gera úttekt á húsbréfakerfinu aftur og aftur, ekki síst vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um það en umræðan hefur snúist mest um hin efnahagslegu áhrif húsbréfakerfisins, áhrif á vextina og áhrif á lánamarkað og vaxtabótakerfið. Menn hafa kannski síður spurt sig þeirrar spurningar hvort húsbréfakerfið fullnægir þörfinni. Lendir stór hópur á milli þessara tveggja kerfa, húsbréfakerfisins og félagslega húsnæðiskerfisins eða hver er staðan í raun og veru? Ég ætla ekki að fara að krefja hæstv. félmrh. svara við þessum stóru spurningum hér og nú en í rauninni er tímabært að fara að skoða þessi mál í samhengi.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna 1. og 2. gr. frv. þar sem verið er að leita eftir heimild til þess að ávaxta fé húsnæðissjóðanna með öðrum hætti en gert hefur verið. Þetta vakti spurningar í mínum huga því að það kemur mér mjög á óvart ef þessir sjóðir liggja með mikla peninga og eru í vandræðum með að ávaxta þá því að við vorum rétt fyrir jól að afgreiða lánsfjárlög sem kváðu á um lántökur upp á fleiri milljarða fyrir báða þessa sjóði. Þeir eru báðir að nota það fé til að greiða eldri lán og til lánveitinga, Byggingarsjóður ríkisins fyrst og fremst til þess að greiða upp eldri lán en Byggingarsjóður verkamanna að hluta til til að borga sín lán og að hluta til til lánveitinga. Ef innstreymið í sjóðinn er það mikið að þar sé fé til að ávaxta, þá á fyrst og fremst að nota það til að draga úr þessum lántökum. Mér kemur því nokkuð spánskt fyrir sjónir eins og fleiri þingmönnum sem hafa talað í þessari umræðu, hvaða fé þetta er sem á að reyna að ávaxta á þennan hátt.
    Að lokum vil ég bara ítreka það sem ég hef sagt að ég er sammála þeirri meginhugsun sem felst í 3. og 4. gr. frv. varðandi lánveitingar til lögbýla, en eins og ég nefndi þá þarf að skoða þessar tillögur í samhengi við þau lög sem gilda um lögbýli, en auðvitað erum við líka í þessu samhengi að horfa á hina erfiðu stöðu landbúnaðarins og þá erfiðleika sem margt bændafólk hefur orðið að ganga í gegnum. Ég vona svo sannarlega að þessi breyting nái fram að ganga og megi verða þeim ábúendum og leiguliðum sem á þurfa að halda til góðs.