Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 18:32:34 (3688)


[18:32]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú aðeins til að ljúka því sem ég kom ekki að í fyrri ræðu minni og mig langaði til að benda á. Það er í fyrsta lagi varðandi skyldusparnaðarákvæðið. Það er auðvitað eðlilegt að lögð sé til sú breyting að rýmka um endurgreiðslu á skyldusparnaði í ljósi atvinnuleysis t.d., en í raun hefði það átt að vera mönnum jafnljóst í fyrra eins og nú þannig að mér þykir og ég vil endurtaka það að hér hafi menn ekki vandað sig nægilega við lagasmíðina í fyrra. Það breytir því hins vegar ekki að menn eiga auðvitað að standa að því að breyta lögum nú eins og þörf er á.
    En ég vil segja um breytinguna í 5. gr. frv. að þar finnst mér þurfa að rýmka meira heldur en þarna er lagt til því að breytingin í 5. gr. nær ekki til þess að mínu mati þegar svo stendur á að veikindi eða atvinnuleysi foreldra ungmennis sem á skyldusparnaðinn á í hlut. Það er bara átt við ef viðkomandi skyldusparandi, ungmennið verður atvinnulaust eða verður veikt, þá sé heimilt að greiða því út en ekki þegar svo stendur á, eins og því miður eru dæmi um. Ég hef líkt og margir aðrir þingmenn fengið upphringingar núna síðustu daga frá fólki sem er í þessari stöðu og spyr hvaða horfur séu á breytingum til að mæta einmitt nákvæmlega þessu skilyrði þar sem á heimili býr unglingur auk foreldra þar sem báðir eða allir aðilar eru atvinnulausir, svo ég hafi nú eitt ,,konkret`` dæmi. Og veikindi geta verið hjá foreldrum sem gera það að verkum að heimilishaldið verður allt miklu erfiðara vegna minni tekna og ungmenni sem á skyldusparnað getur þurft að búa við afar litla vinnu án þess að vera formlega séð atvinnulaust. Og eins líka, og það finnst mér of stíft, að menn þurfi að hafa 6 mánuði til að sanna það að þeir eigi að fá endurgreiðslurétt því að það segir í textanum að atvinnuleysi skuli hafa varað í a.m.k. 3 mánuði samtals síðustu 6 mánuði þannig að það getur liðið ansi langur tími þar til rétturinn stofnast til að fá endurgreitt. Ég nefni þetta af því að ég tel að við þurfum að huga að því að breyta þessum lagatexta í þá átt að rýmka eilítið þarna um.
    Þá vil ég aðeins ræða betur um 4. gr. Hún er dálítið snúin og ég held að menn ættu að velta henni vel fyrir sér. Ég bendi á það sem kemur fram í skýringum að í þeim tilvikum sem landeigandi og ábúandi er ekki sami aðilinn, þá getur komið upp dálítið skondin staða. Þannig er að ef jörðin er ekki nægjanlega hýst þannig að íbúðarhúsnæðið fullnægir ekki þeim kröfum sem menn gera og sá sem er ábúandi vill byggja nýtt íbúðarhúsnæði, þá verður hann fyrst að láta landeigandann vita og landeigandi ákveður hvort hann kostar þessa endurbyggingu eða ekki. Og þá spyr ég: Ef landeigandi ákveður að kosta þessa endurbyggingu, á hann þá ekki rétt á því að fá lán, hvort heldur úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna til að kosta þá uppbyggingu? Við getum líka breytt dæminu: Hafi verið veitt lán og byggð íbúð fyrir ábúanda sem uppfyllti skilyrði 64. gr. þessi ábúandi hverfur síðan af jörðinni og landeigandi tekur við, hvað gerist þá? Þá samkvæmt frv. þar sem segir í lokamálsgrein 4. gr. er ekki um að ræða forkaupsrétt sveitarfélags þannig að lánið hlýtur að ganga til landeiganda. Nú getur landeigandi verið efnaður maður og uppfyllt á engan hátt ákvæði 64. gr. Hvað gera menn þá? Svona atriði verða menn að hugsa fyrir. Þannig að ég held að menn verði að skoða þetta nokkuð vel og ég held að menn lendi í svona vandræðum vegna þess að við erum með kerfi þar sem hin félagslegu réttindi eru bundin steypunni. Við höfum bundið félagslegu réttindin við íbúðina sjálfa, þ.e. viðkomandi flytur þau ekki með sér heldur verður íbúðin sem slík ákveðin félagsleg íbúð, svo er skipt um fólk í henni og fólki raðað inn í íbúðina eftir því hvað passar. En af því að við erum með þetta kerfi svona, steypufélagsleg réttindi, þá getum við lent í verulegum vandræðum með svona útvíkkun eins og þarna er lagt til af því að hún á auðvitað að byggjast á persónulegum högum. Það er kannski flóknara mál að fara yfir það í heild sinni.
    Þá held ég að ég hafi komið þeim atriðum til skila, virðulegi forseti, sem ég ætlaði að nefna varðandi þetta frv., en ég vil þó segja að lokum og minna á að þegar verið var að taka lögin í gegn í fyrra með sérstöku frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þá óskaði húsnæðismálastjórn eftir tilteknum lagabreytingum í leiðinni úr því að menn væru á annað borð að breyta lögum. Við því var ekki orðið. Hæstv. félmrh. og liðsmenn hans urðu ekki við þeirri ósk að svo stöddu með þeim svörum að það yrði tekið upp sérstaklega á næsta þingi. Og ég spyr fyrst svo var gert og nú er komið sérstakt frv. til að mæta þeim óskum um lagabreytingar: Hvers vegna eru þá ekki þær lagabreytingar sem óskað var eftir við ráðherra að yrðu fluttar? Ég nefni: Hvers vegna er ekki orðið við þeirri ósk húsnæðismálastjórnar að breyta ákvæðum laga um almennar kaupleiguíbúðir þannig að það verði eitt lán upp á 90% af byggingarkostnaði til 43 ára í stað þess að vera með lán upp á 70% og svo annað upp á 20% sem er bara til fimm ára ef um kaup á íbúð er að ræða? Þetta skiptir verulegu máli hvað varðar greiðslubyrði.
    Ég get svo sem nefnt fleira sem óskað var eftir að yrði flutt en ráðherra hefur greinilega ekki tekið inn í sitt frv., en ég læt það duga að spyrja að þessari tilteknu ósk.