Húsnæðisstofnun ríkisins

80. fundur
Þriðjudaginn 01. febrúar 1994, kl. 18:56:02 (3691)


[18:56]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að það er gagnrýnt af síðasta ræðumanni að verið sé að koma inn hér með frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins án þess að tilbúin sé sú heildarendurskoðun sem við höfum gengið í gegnum og frv. þar að lútandi, þá vænti ég þó að hv. þm. geti verið sammála mér að það geta verið þau ákvæði og þær ástæður að það sé knýjandi að koma með málið inn með þessum hætti eins og hér er gert og þá á ég við sérstaklega ákvæðið varðandi skyldusparnaðinn.
    Ég á ekkert sérstaklega von á að það sé hægt að afgreiða einhverjar heildarbreytingar varðandi félagslega íbúðakerfið á þessu þingi. Þá er alveg ljóst að ákvæði eins og varðandi skyldusparnaðinn geta ekki beðið fram á næsta haust. Ég geri einnig ráð fyrir því að það sé erfitt að láta ákvæði varðandi lögbýli bíða vegna þess að það eru þarna eitt eða tvö tilvik sem taka þarf sérstaklega á með eins miklu hraði og hægt er.
    Varðandi það að samþykkja frv. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur þá tel ég það afturhvarf til þess sem við vorum að breyta á sínum tíma þar sem við erum raunverulega að fækka og hætta þessum lánafyrirgreiðslum úr Byggingarsjóði ríkisins en hér er lagt til að lánaflokkurinn verði aftur tekinn upp í gegnum Byggingarsjóð ríkisins og ég hef fært rök fyrir því af hverju þessi breyting var gerð. Þannig að ég legg áherslu á það að til þess að koma til móts við það fólk sem þarf á að halda lánum til íbúðarbyggingar og býr á lögbýli verði þessi leið skoðuð sem hér er lögð til.
    Varðandi það hvort það sé þá heimild í Byggingarsjóði ríkisins eða almenna lánakerfinu varðandi heilsuspillandi húsnæði þá var gert ráð fyrir að almenna kerfið, húsbréfakerfið, dygði í því sambandi, ekki síst eftir að það kom heimild til endurbótalána.