Eftirstöðvar fjár til atvinnuskapandi verkefna

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:48:06 (3705)


[13:48]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Því miður er ekki á þessari stundu nákvæmlega hægt að sundurgreina þessa tölu en síðar í þessum mánuði mun koma yfirlit frá fjmrn. um útgjöld á sl. ári og þá verður hægt að segja nákvæmlega til um það hve miklir fjármunir fóru út fyrir áramót af þessum milljarði. Ég get giskað á að það sem fór út á sl. ári hafi verið um 600--700 millj. kr. en ég get ekki ábyrgst þá tölu. Reyndar skiptir það ekki höfuðmáli varðandi tilganginn með þessum fjárframlögum því að sú yfirlýsing lá fyrir á sl. ári og hefur margoft verið ítrekuð síðan að þessum fjármunum verður varið til þeirra verkefna sem til stóð jafnvel þótt það færist yfir á þetta ár. Það þýðir hins vegar í raun að þeim fjármunum mun verða varið utan við fjárlög ársins 1994 og byggist þá á heimildum til þess að færa á milli ára samkvæmt reglum sem settar hafa verið og ég veit að hv. fjárln. þekkir gjörla.