Eftirstöðvar fjár til atvinnuskapandi verkefna

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:50:06 (3707)


[13:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni ummæla hv. þm. vil ég að það komi mjög skýrt fram hér og nú að um ráðstöfun þessa fjár og um það hvernig fara skyldi með það að öðru leyti hefur verið haft fullt samráð við Alþýðusamband Íslands. Það lá fyrir strax á sl. sumri en yfirlýsing var gefin í tengslum við kjarasamninga að það kynni að vera erfitt að koma fjármununum í lóg á fyrra ári vegna þess að þannig stóð á um framkvæmdir. Þetta vil ég að komi sérstaklega fram að hér er ríkisstjórnin ekki að gera neitt annað en það sem samþykkt hefur verið af báðum þeim aðilum sem að þessum málum komu. Það er full samstaða um það til hvaða verkefna þetta fór þó að ákvörðunin sé að sjálfsögðu ríkisstjórnarinnar. Og það verður líka staðið við það að þessir peningar verða notaðir og koma nú að gagni þegar atvinnuleysið hefur vaxið nú í upphafi ársins en kemur til með að dvína á næstu mánuðum.