Hækkun þjónustugjalda í bönkum og lánastofnunum

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:51:31 (3708)

[13:51]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur orðið mjög ánægjuleg þróun í þeim efnum að vextir hafa farið lækkandi mjög ört, sérstaklega fyrir frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar. Því vildi ég leyfa mér að beina spurningu til hæstv. viðskrh.
    Það hefur vakið nokkra undrun og spurningar meðal margra að samfara því að bankar og lánastofnanir í landinu hafa lækkað vexti sína hefur því jafnframt verið lýst yfir að bankar og lánastofnanir, einkanlega bankastofnanir, hyggist bæta sér upp tekjumissi af lækkandi vaxtamun með því að auka og hækka þjónustugjöld. Því vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Hver er hans skoðun á þessu máli og hyggst ráðherrann beita sér með einhverjum hætti til þess að koma í veg fyrir það að byrðum af hækkandi þjónustugjöldum verði velt yfir á almenning?