Launakjör bankastjóra ríkisbankanna

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 13:57:11 (3712)


[13:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Á haustmánuðum var mikil umræða á hinu háa Alþingi sem úti í þjóðfélaginu um launakjör ýmissa yfirmanna ríkisstofnana og þau fríðindi sem þeir karlar njóta. Komu bankastjórar þar mjög við sögu með sín margföldu ráðherralaun og fjallajeppa. Í kjölfar þeirrar umræðu ákvað hæstv. viðskrh. að gera úttekt á launamálum bankastjóra ríkisbankanna. Um miðjan janúar kynnti hæstv. viðskrh. niðurstöður þeirrar athugunar sem framkvæmd var af Ríkisendurskoðun en hún leiddi m.a. í ljós að bankastjórar ríkisbankanna fá sérstakar greiðslur fyrir hin ýmsu viðvik, m.a. fyrir það að vera í vinnunni og sitja fundi í vinnutímanum sem verður þó að teljast hluti af starfi bankastjóra.
    Í kjölfar þessarar athugunar lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að hann mundi ræða við formenn bankaráða ríkisbankanna og óska eftir endurskoðun á launakerfi bankastjóra. Jafnframt tók hæstv. viðskrh. undir þá skoðun sem við kvennalistakonur höfum margsinnis látið í ljós, sem sé þá að launakerfi hins opinbera sé handónýtt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar.
    Nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Hver er niðurstaðan af viðræðum hans við formenn bankaráðanna þriggja?
    Hvað verður gert til að draga úr eða leggja hreinlega niður það forréttindakerfi sem bankastjórar ríkisbankanna búa við?
    Hvernig ætlar hæstv. viðskrh. að beita sér fyrir endurskoðun á launakerfi ríkisins þannig að það feli í sér meiri jöfnuð og réttlæti?