Samkomulag stjórnarflokka um sjávarútvegsmál

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:05:06 (3717)


[14:05]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Til þess að róa hv. þm. og e.t.v. þingheim allan þá vil ég gjarnan lýsa því yfir að sá ráðherra sem hér stendur er ekki á leiðinni í neina styrjöld. Enda kannski ekki manna best búinn til þess.
    Það er alveg ljóst að mál eins og það sem hér hefur verið tekið til umræðu, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, er samkomulagsmál. Þar er ekki verið að flytja neina eina flokksstefnu. Þó það sé ekki mitt að tala fyrir munn Sjálfstfl., þá býst ég við því að forustumenn þess flokks mundu nú varla við það kannast að málin eins og þau væru fram borin væru hrein stefna Sjálfstfl., þau eru ekki heldur hrein stefna Alþfl. Þetta er málamiðlun sem hefur verið samið um og ég vænti þess að báðir flokkarnir muni standa við. Hins vegar ætti það ekki að koma neinum á óvart að það hefur verið mikil andstaða í Alþfl. við kvótakerfið. Ég minni bara á að sá sem hér stendur hefur ávallt þegar honum hefur gefist tækifæri til greitt atkvæði gegn því kerfi jafnvel þó að honum hafi verið hótað bæði góðu og illu af þeim sem þá fóru með völdin í sjávarútvegsmálunum. Ég vil aðeins taka það fram að þær hótanir hefur sá sem hér stendur ekki fengið frá núv. samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn. En það á ekki að koma neinum manni á óvart að ég sé andvígur kvótakerfinu þó svo ég hafi verið reiðubúinn að ganga til málamiðlana um þá stefnu sem samið hefur verið um hverju sinni.