Samkomulag stjórnarflokka um sjávarútvegsmál

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:08:01 (3719)


[14:08]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Þó svo stjórnarandstaðan hafi ekki staðið að flutningi málsins þá þýðir það ekki að það eigi ekkert mark að taka á stjórnarandstöðunni. Að sjálfsögðu er þetta mál unnið eins og öll önnur mál að það er samkomulag um það í ríkisstjórn á milli stjórnarflokka hvernig mál skuli lögð fram á Alþingi. Um það er samið. Hins vegar mega menn eiga von á því með þessi mál eins og önnur að þau kunni að taka breytingum í meðförum Alþingis. (Gripið fram í.) En þær breytingar verða að sjálfsögðu ekki afgreiddar og samþykktar nema stjórnarflokkarnir séu sammála um að bera ábyrgð á því hvernig málin verða samþykkt og afgreidd. Hv. þm. gefst kostur á því eins og öðrum stjórnarandstæðingum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í meðferð málsins og ég þori alls ekkert að lofa því fyrir fram að það verði ekkert mark tekið á tillögum hans eða annarra stjórnarandstæðinga nema síður væri. Að sjálfsögðu verður hlustað á þá og tekið mark á skoðunum þeirra þó svo að nú um stundir víki því þannig við að hv. þm. Halldór Ásgrímsson sitji ekki í sæti sjávarútvegsráðherra.