Samkomulag stjórnarflokka um sjávarútvegsmál

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:10:00 (3721)


[14:10]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt að svona langreyndur þingmaður eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson vissi að það er mjög sjaldan lagt fram mál á Alþingi þar sem ekki er gert ráð fyrir að kunni að taka breytingum í meðförum þingsins. Og til þess að ganga úr skugga um það þá vildi ég gjarnan spyrja hv. þm.: Man hann eftir nokkru einasta máli í hans ráðherratíð sem lagt var fram sem stjfrv. á Alþingi án þess að gert væri ráð fyrir því að Alþingi gæti með einhverjum hætti breytt slíku frv.? Hvers konar hugsunarháttur er þetta hjá hv. þm.? Hvert heldur hann að sé hlutverk löggjafarsamkomu ef hann gerir ráð fyrir því að ríkisstjórn leggi fram stjfrv. sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að Alþingi sé óheimilt að breyta? Ég kannast ekki við mörg slík mál en það væri kannski áhugi á að fá hv. þm. til að upplýsa það hvaða mál flutti hann í sinni ráðherratíð sem var samkomulag um að Alþingi fengi ekki að breyta?