Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 14:16:02 (3724)


[14:16]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. til hafnalaga var flutt á síðasta Alþingi. Frv. var þá tekið til athugunar í samgn. og fluttar við það allmargar breytingartillögur en frv. náði þá eigi afgreiðslu og eigi voru heldur greidd atkvæði um þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hafði flutt.
    Frv. var flutt að nýju í byrjun þessa þings og þá hafði því verið breytt með tilliti til þeirra breytingartillagna sem fluttar höfðu verið á sérstöku þingskjali af meiri hluta samgn. í lok síðasta þings. Þær breytingar eru því allar í frv. eins og það hefur verið til meðferðar á þessu þingi.
    Samgn. hefur tekið frv. til athugunar að nýju með tilliti til athugasemda sem þegar komu fram við 1. umr. málsins í haust sem og athugasemda sem borist höfðu en fram hafði komið umsögn að nýju um frv. frá hafnarstjórn Reykjavíkurborgar. Á fund nefndarinnar kom Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgrn., og á fund nefndarinnar í morgun eftir að nefndin hafði skilað áliti fyrir 2. umr. komu fulltrúar Hafnasamband sveitarfélaga og ræddu nokkur atriði í sambandi við frv.
    Nefndin hefur eigi orðið sammála um afgreiðslu málsins en meiri hluti nefndarinnar, sem er skipaður fulltrúum stjórnarflokkanna, hefur flutt nokkrar breytingartillögur við frv. sem birtast á þskj. 395. Þessar breytingartillögur eru ýmsar hverjar ekki efnismiklar og eru til samræmis við aðrar lagabreytingar sem komið hefur í ljós við nákvæmari skoðun en orðið hafa en sumar þeirra skipta á hinn bóginn máli efnislega varðandi þá lagasetningu sem hér er til meðferðar. Ég tel eðlilegt að ég fjalli um þær breytingartillögur sem meiri hlutinn flytur og í tengslum við þá yfirferð að fjalla nokkuð um þær umræður og þá gagnrýni sem komið hefur fram á frv. í meðförum samgn.
    Í fyrsta lagi er brtt. við 8. gr. Hún fjallar um það að fellt verði niður ákvæði um að hlutafélög geti orðið eigendur hafna samkvæmt lögum þessum. Þetta er eitt þeirra atriða sem gagnrýnd hafa verið við meðferð þessa máls. Þessi breytingartillaga er flutt vegna þess að ekki hafa fengist afdráttarlaus svör frá skattyfirvöldum um skattalega meðferð hafna sem væru í eigu hlutafélaga. Þess vegna er brtt. flutt þannig að það sé afdráttarlaust að þessi lög taki ekki til hlutafélagahafna. Nú eru hlutafélagahafnir til en lúta ekki að þessu leyti þessum lögum.
    Varðandi 8. gr. að öðru leyti hefur verið í umræðu, t.d. við 1. umr. þessa máls nú og í nefndinni þar sem sumir hv. nefndarmenn minni hlutans hafa gagnrýnt að þar er heimild til þess að hafnir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Spurt hefur verið: Að hvaða fyrirtækjum geta hafnir þannig orðið aðilar með hlutafé og hvar eru mörkin? Þessu vil ég svara á þann hátt að það er ástæðulaust að setja slík mörk með upptalningu heldur eru þessi mörk ákaflega þröng. 14. gr. þrengir þessa heimild því að þar segir að tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar. Tekjum og eignum hafnarsjóðs má því einungis verja til þátttöku í hlutafélögum að það liggi þá fyrir að það sé í þágu hafnarinnar.
    Enn fremur kemur fram í áliti hv. minni hluta nefndarinnar að á þennan hátt geti framlög hins opinbera orðið til þess að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja í framtíðinni, þ.e. þá á hv. minni hluti væntanlega við það á þskj. 528 að framlög ríkisins til hafnarframkvæmda geti orðið til þess að þær hafnir sem fá slík framlög geti orðið þátttakendur í atvinnufyrirtækjum sem síðan skekki samkeppnisstöðu. Þetta er hæpið vegna þess að í 26. gr. eru ákvæði um greiðsluþátttöku ríkisins í hafnarframkvæmdum, en síðan segir í 27. gr. að slík framlög eru hámarksgreiðslur sem hægt er að skerða. Skerðing á slíkum greiðslum skal miðast við fjárhagslega stöðu hafnarsjóðs og skulu um það settar reglur í reglugerð. Það er túlkun okkar í meiri hluta nefndarinnar að það segi sig sjálft, og mér er kunnugt um að sá er skilningur samgrn., að ef hafnarsjóðir eru það öflugir að þeir geta séð af fjármagni sínu til þátttöku í hlutafélögum þá skerðir það sjálfkrafa framlög ríkisins til slíkra hafna sem settar verða þá nánari reglur um í reglugerð.
    Í öðru lagi er fellt niður ákvæði skv. 11. gr. að ákveðinn ráðherra skuli setja reglugerð fyrir hverja höfn eins og segir í frv. En það er sett hér með tiliti til þess að það sé ekki afdráttarlaus skylda ráðherra að setja sérstaka reglugerð fyrir hverja höfn. Það er gert með tilliti til þess að þar sem tvær eða fleiri hafnir mynda hafnasamlög þá getur verið eðlilegt og rétt að setja eina reglugerð fyrir slíkar hafnir. Það er vitaskuld afdráttarlaust sem kom fram ábending um á fundi í morgun að það er ekki við það átt í þessu orðalagi að ráðherra skuli setja eina reglugerð fyrir allar hafnir landsins. Það er fjarstæða og þetta orðalag gefur ekkert tilefni til þess að skilja greinina á þann hátt.
    Þá segir í þriðja lagi í brtt. meiri hlutans að fellt verði niður ákvæði úr frv. um að ráðherra skuli setja í reglugerð ákvæði um hafnsögu. Þau ákvæði eru í lögum um leiðsögu skipa og eiga þar heima en ekki í þessum lögum. Þess vegna er ástæðulaust að taka það upp úr gömlu hafnalögunum að slíkt ákvæði sé einnig í þessum lagabálki og því er lagt til að það verði fellt niður.
    Í fjórða lagi er í tillögum meiri hlutans lagt til að tekin séu af tvímæli um að hið sérstaka 25% vörugjald skuli lagt á samkvæmt almennri og staðfestri gjaldskrá sem staðfest er af samgrh. þannig að hugsanleg frávik frá þeirri gjaldskrá hafi eigi áhrif á innheimtu þessa gjalds. Um þetta atriði komu fram athugasemdir. Því var mótmælt af einni höfn, þ.e. Reykjavíkurhöfn, að samgrn. hafi lagt þennan skilning í hafnalögin eins og þau eru og ákvæði um vörugjaldið en til þess að taka af öll tvímæli þykir meiri hluta nefndarinnar rétt að þessi ákvæði séu færð í lög.
    25% vörugjald, sem hér er ákvæði um, er skattur sem lagður er á starfsemi hafnanna og greiðist af notendum hafna. Það er eðlilegt að þegar slíkur skattur er lagður á skuli gjaldstofninn alls staðar vera hinn sami en það fari eigi eftir fjárhag hafna að hann sé breytilegur þannig að þær hafnir sem hafa öflugan eða góðan fjárhag geti komið sér undan að greiða nema hluta af þessu gjaldi. Því telur meiri hluti nefndarinnar nauðsynlegt að taka af tvímæli um þessi efni.
    Þá er í fimmta lagi lagt til að bætt verði við ákvæði sem er í samræmi við 6. gr. laga nr. 112/1993, um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga, sem eru ný lög sem komu til á þessu þingi, þannig að einstökum hafnarstjórnum verði heimilt að lækka gjöld af sjávarafla. Er þetta nauðsynleg samræming við þau lög. Annað er ekki um það að segja.
    Í sjötta lagi er lagt til að ákvæðum um bótagreiðslur verði beitt þannig að bætur verði ákvarðaðar samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms þar sem samkomulag næst eigi. Þessu eru á annan veg skipað í frv. eins og það liggur fyrir en við nánari athugun er það skoðun meiri hluta nefndarinnar að þessi ákvæði, að fara að í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms, séu skýrari og miklu venjulegri í meðferð bótamála þar sem eigi næst samkomulag sem næst í mjög mörgum tilvikum.
    Þess má geta að hjá ýmsum öðrum ríkisstofnunum þar sem slík bótamál koma einstöku sinnum upp er reynsla fyrir því að sú aðferð að fara að í samræmi við ákvæði laga um framkvæmd eignarnáms gangi yfirleitt greitt fyrir sig og eðlilegt að samræmi sé í því á milli hinna einstöku lagabálka sem fjalla um starfsemi hinna ýmsu stofnana ríkisins.
    Þá er í sjöunda lagi lagt til að ákvæði 36. gr. og 2. mgr. 39. gr. verði felld brott þar sem þau höfðu þegar verið felld brott úr lögum nr. 69/1984, þ.e. gildandi hafnalögum.
    Þetta hafði þegar verið fellt brott úr gildandi hafnalögum og hafði verið tekið upp í þetta frv. en við nánari athugun þykir ekki tilefni til þess að vera að taka þetta að nýju inn í lögin þar sem það er álitið óþarft.
    Í áttunda lagi er lagt til að ráðherra verði eigi settur frestur til setningar reglugerðar um framkvæmd laganna og jafnframt að inn verði tekin ákvæði 6. gr. laga nr. 62/1993, um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu, sem samþykkt voru 5. maí 1993.
    Ég tel ástæðu til að fara örfáum orðum um þessa brtt. við 40. gr.. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir á sviði hafnamála að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sbr. lög nr. 2 13. janúar 1993, um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 66/1993.``
    Það er öllum hv. alþm. kunnugt að breyting varð á lögunum um Evrópska efnahagssvæðið við það að Sviss hætti við þátttöku í þessum samtökum. Lögunum varð að breyta svo sem hér er vísað til um lögin nr. 66/1993 og á einvörðungu við þá breytingu.
    Ég tel að hér sé um fullnægjandi ákvæði að ræða vegna þess að þegar við fjölluðum um lög um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu var hv. samgn., má ég segja, sammála um að setja inn í þau lög takmarkandi ákvæði um heimildir samgrh. til setningar reglugerða sem ég leyfi mér að rifja upp, með leyfi hæstv. forseta, er svohljóðandi:
    ,,Heimildir samgrh. til að setja reglugerðir samkvæmt lögum þessum skulu teknar til endurskoðunar verði verulegar breytingar á gerðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem lög þessi miðast við eða viðbætur við þær.``
    Í þeirri tilvitnun sem meiri hluti samgn. leggur til að komi inn í hafnalög nú er í fyrsta lagi tekin sú lagagrein bandormslaganna um samgöngumál er lýtur að hafnalögum. Þar er enn fremur vitnað til þessara laga og þar á meðal til þeirra takmarkana sem eru í þessu ákvæði til bráðabirgða sem þýðir það á mæltu máli að samgrh. hefur ekki heimilt til að setja reglugerð við lög um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gerðir hans ef þær taka breytingum frá því að Alþingi afgreiddi málið án þess að það komi að nýju til kasta Alþingis.

    Ég held að ég megi fullyrða að allir hv. nefndarmenn í samgn. séu sammála um að slíkar takmarkanir þurfi að vera í lögum og ekki sé fært af hálfu Alþingis að veita hæstv. samgrh., hver sem hann er, á komandi árum opna heimild til setningar reglugerða við gerðir samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef þær taka breytingum sem að einhverju marki eru heldur miðist heimildirnar við samninginn eins og hann var samþykktur á Alþingi á sínum tíma.
    Ég vænti þess að þetta sé skýrt og ég lít svo til að með þessari tilvitnun sem hér er tekin upp í brtt. meiri hluta nefndarinnar varðandi hafnalögin sé með fullnægjandi hætti vitnað til þeirra takmarkana sem felast í lögunum sem samþykkt voru 5. maí sl. um breytingu á lagaákvæðum sem varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í níunda lagi, sem er aðeins eðlilegt formsatriði, segir að með lögum þessum eru felld úr gildi hafnalög nr. 69 28. maí 1984, með síðari breytingum.
    Ég vil síðan geta þess að ég hef sem formaður nefndarinnar greint frá því á fundi nefndarinnar í morgun að ég muni taka málið fyrir enn á milli 2. og 3. umr. vegna ábendinga sem komið hafa fram eftir að nefndin skilaði sínum brtt. fyrir 2. umr. Þar er í fyrsta lagi um að ræða tilmæli sem borist hafa um að taka inn heimild í 24. gr. laganna þar sem fjallað er um aðstöðu til tollafgreiðslu ferjuskipa sem hafa fasta áætlun á milli Íslands og annarra landa. Ég tel fullkomlega eðlilegt að líta á það með velvilja að slík heimild sé tekin inn í lögin og mun leggja það til á fundi nefndarinnar.
    Enn fremur hefur nú í janúar komið í ljós að vörugjöld leggjast misjafnlega á flutninga með ferjum sem samkvæmt vegáætlun og breytingum á vegáætlum er litið á sem hluta af vegakerfi landsins. Ég tel nauðsynlegt að kanna það til botns milli 2. og 3. umr. hvort nauðsynlegt sé að setja lagaákvæði um þau mál vegna þess að óviðunandi er að þau atriði séu framkvæmd með mismunandi hætti. Sums staðar eru upplýsingar um að vörugjöld séu tekin af flutningi sem fer um borð í ferjur, annars staðar þar sem hann fer um borð í ferju og líka þar sem skipað er á land og í þriðja lagi sé þetta framkvæmt sums staðar þannig að tekin séu vörugjöld af sumum vörum en ekki öðrum.
    Hér þarf að gilda ein regla og ef til þess kemur að það þurfi að taka á því atriði með lagasetningu þá mun ég beita mér fyrir því að lög þessi verði eigi afgreidd fyrr en það liggi alveg ljóst fyrir hvort ástæða þyki til að taka það inn í þessi lög. En ég bendi á varðandi þær ferjur sem lúta yfirstjórn Vegagerðar ríkisins að þær verða væntanlega eins konar hluti af vegakerfi landsins og þarf þá líka að athuga hvort það beri að einhverju leyti að taka slík ákvæði inn í vegalög jafnframt því sem þau kynnu að vera tekin inn í hafnalög.
    Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjalla um þetta í lengra máli. Ég legg til, virðulegi forseti, að þær brtt. sem ég hef gert grein fyrir frá meiri hluta samgn. á þskj. 395 verði samþykktar og frv. svo samþykkt við 2. umr. en hef þegar lýst yfir að frv. mun verða tekið enn til athugunar á milli 2. og 3. umr.