Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 15:33:27 (3731)


[15:33]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það má segja að það sé gott að þessi fyrirspurn hefur komið fram til að taka af tvímæli um það hvað felist í 8. gr. að þessu leyti. Eins og fram kemur í inngangi greinargerðar segir að nefndin, sú er samdi frv., telji eðlilegt að ríkisvaldið stuðli að sínu leyti að því að hafnasamlög verði mynduð, m.a. með gerð sérstakra framkvæmdaáætlana fyrir hvert einstakt hafnasamlag og betri fyrirgreiðslu varðandi ríkisframlög til framkvæmda en einstakar hafnir innan samlaganna gætu annars vænst. Þarna er almennt verið að tala um þá stefnu að það beri að reyna að stuðla að því að hafnir vinni saman og greiða fyrir slíkri samvinnu þar sem það gerir hvort tveggja í senn að draga úr stofnkostnaði og rekstrarkostnaði hafna eins og skýrt dæmi er um á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem fyrsta hafnasamlagið var stofnað.
    Í mínum huga er það alveg ljóst að í þessum orðum felst að ekki geti komið til hafnasamlags nema

öll þau sveitarfélög og þeir hafnarsjóðir sem að slíku samlagi standa séu því samþykkir. Á hinn bóginn tel ég nauðsynlegt að orðalagið sé ákveðið til að kveða upp úr um það að ráðherra hafi gagnvart Alþingi heimild til að skuldbinda sig í sambandi við stofnun hafnasamlaga með eðlilegum hætti og innan ramma fjárlaga.