Hafnalög

81. fundur
Miðvikudaginn 02. febrúar 1994, kl. 16:03:05 (3736)


[16:03]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Þótt 75% hafi staðið áður í lögum og standi í núgildandi lögum um ytri hafnarmannvirki þá hefur í flestum tilvikum verið svo að Hafnabótasjóður hefur bætt við 15% sem vantar upp á 90% þannig að í raun hefur það í flestum tilvikum verið 90%. Það sem hins vegar vakti athygli mína var afstaða hv. þm. Vestfirðinga að hafa áhyggjur af því að ráðist yrði í ytri hafnarmannvirki á því sama ári og myndarlega hefur verið staðið að slíku verki á Bolungarvík.
    Ég vil líka vekja athygli á því að þeir hv. þm. sem hér hafa talað og virðast vera mjög afturhaldssamir í samgöngumálum út frá ræðum þeirra og raunar oft endranær eru á móti öllum breytingum ekki vegna þess að þeir beri það fyrir sig að þær leiði til óhagræðis heldur af öðrum ástæðum. (Gripið fram í.) Ég heyri að þingmaður þeirra á Sauðárkrók er eitthvað órólegur.
    Í öðru lagi vekur það athygli mína um þingmann Vestfjarða að hann skuli amast við vörugjaldinu. Á Ísafirði er höfnin mjög illa farin, hefur verið vanrækt. Það er gert ráð fyrir því á árunum 1993--1996 samkvæmt þeirri fjárveitingaþörf sem ég er hér með að til þess verkefnis verði varið 189 millj. kr. Svo er um ýmsar aðrar framkvæmdir úti á landi. Vörugjaldið er ekki sérstakur skattur á landsbyggðarmenn heldur er hann þess eðlis að það er verið að leggja álögur á þjóðina alla til að byggja upp hafnarmannvirki úti á landi. ( StG: Þú skilur ekki frv.) Þetta veit Stefán Guðmundsson hv. þm. fullvel og er næsta undarlegt ef hann er að reyna að draga fjöður yfir það. Þegar menn eru að tala í þessum anda þá eru þeir á móti því að teknanna sé aflað en ætla eigi að síður að eyða peningum.