Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 11:21:14 (3742)


[11:21]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa ágætu skýrslu og starfsemi Ríkisendurskoðunar sem ég tel vera okkur til góðs en þó ekki nýtast eins og hún gæti einfaldlega vegna þess að það hafa ekki verið til neinar fastar reglur um það með hvaða hætti skýrslur Ríkinendurskoðunar skuli meðhöndlaðar. Þær skýrslur sem við höfum fengið hafa ekki veitt það aðhald og ekki orðið til þeirra úrbóta í starfsemi einstakra ríkisstofnana sem efni hafa staðið til vegna þess að við höfum ekki tekið þær fyrir hvorki í þingsölum né í fastanefndum þingsins. Það hefur verið lausleg yfirferð þar sem Ríkisendurskoðun hefur kynnt sínar skýrslur og þar með er málinu lokið. Því er ekki fylgt eftir á þinginu hvort þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun kemur með um starfsemi einstakra stofnana, hvort sem um er að ræða fjárhagsendurskoðun eða stjórnsýsluendurskoðun, hefur verið sinnt hjá viðkomandi stofnun. Ég tel það gera það að verkum að út úr þessari vinnu Ríkisendurskoðunar kemur ekki það sem til er ætlast, þ.e. það aðhald sem við vildum gjarnan sjá. E.t.v. er það hræðslan í okkur við að ræða þessar skýrslur að hingað til hefur ef það er nefnt af nefnd eða einstökum þingmanni að þörf sé á að biðja um fjárhagslega eða stjórnsýslulega úttekt á einhverri stofnun þá hljóti að liggja að baki veruleg ásökun um slæman rekstur. Þessu viðhorfi þurfum við að breyta. Við þurfum að geta notað starfsemi Ríkisendurskoðunar til að endurskipuleggja rekstur ríkisstofnana sem vissulega er þörf fyrir. Því að breyttir tímar þýða breytt eðli starfsemi stofnana ríkisins eða ættu að gera það en gera það ekki í öllum tilvikum. Okkur er nánast ókleift að nýta starfsemi Ríkisendurskoðunar til þess m.a. að gera tillögur um hvernig skuli breyta eðli starfsemi viðkomandi stofnunarinnar vegna þess að með því að biðja um þessa úttekt er litið á það sem einhvern áfellisdóm, annaðhvort sé fjármálaóreiða eða spilling innan stofnunarinnar og það er slæmt. Við eigum að geta nýtt þetta tæki á allt annan veg.
    Það er annað sem ég er óánægð með og vil gjarnan að komi fram í þessari umræðu. Ríkisendurskoðun er stofnun sem heyrir undir starfsemi Alþingis en það er nú engu að síður þannig að hluti þeirra skýrslna eða úttekta sem Ríkisendurskoðun vinnur kemur aldrei fyrir augu þingmanna. Það hefur meira að segja gerst að þó skýrslubeiðni eigi upptök sín í fjárln. höfum við fjárlaganefndarmenn ekki fengið að sjá heildarniðurstöðu úr þeirri úttekt. Ég veit til þess vegna þess að ég fékk núna fyrir stutt síðan senda skýrslu sem Ríkisendurskoðun vann í mars eða apríl á síðasta ári. Það er skýrsla sem þingmenn hafa aldrei fengið í hendur. Aldrei nokkurn tímann. Sem vissulega er þó þörf fyrir okkur að skoða. Þar var málefni sem við hefðum þurft að skoða, sérstaklega kannski fjárln. með tilliti til fjárveitinga.
    Skýrslurnar eiga að vera fjárhagsendurskoðun eða stjórnsýsluendurskoðun á stofnunum og ég tel það alveg fráleitt að fjárln. eða fastanefndir þingsins, sem eiga að fjalla um fjárveitingar til einstaka þátta í starfsemi ríkisins, skuli ekki eiga aðgang að öllum þeim upplýsingum sem Ríkisendurskoðun hefur undir höndum. Ég hefði gjarnan viljað sjá þetta breytast.
    Það var nefnt áðan að á sínum tíma hefði Ríkisendurskoðun setið yfir fjárln. lon og don, eins og hv. þm. Svavar Gestsson orðaði það. Það var alveg rétt að það var of mikið af því góða. En ýmislegt hefur breyst í starfsemi hv. fjárln. á undanförnum árum og eitt af því er að þar sést nú Ríkisendurskoðun ekki oft og mætti gjarnan koma þar meir. Það er hluti af þeim breytingum sem urðu á vinnubrögðum þeirrar nefndar, sem ég tel ekki vera allar til bóta, á undanförnum árum. Ég tel að afskipti Ríkisendurskoðunar af starfsemi fjárln. og þeim plöggum sem við fáum í hendur þyrftu að vera miklu meiri en þau eru.
    Að síðustu vil ég ítreka þá skoðun mína í fyrsta lagi að Alþingi fái allar skýrslur Ríkisendurskoðunar. Það er hægt að meta hverju sinni hvaða skýrsla færi í umfjöllun eða með hvaða hætti sú skýrsla yrði send til nefnda og hvaða nefndir fengju hana til skoðunar og ef það þarf af einhverjum ástæðum að krefjast trúnaðar af þingmönnum varðandi niðurstöðu skýrslunnar þá ætti það að vera eitthvað sem við ættum að lúta. En það er útilokað að við getum nýtt starfsemi þessarar stofnunar til fulls öðruvísi en að við fylgjumst með þeim niðurstöðum sem þaðan berast. Ég tel að þar sem stofnunin heyrir undir þingið þá eigum við fullan rétt á þessum upplýsingum hvort sem beiðnin kemur frá ráðuneyti, Alþingi eða einstaka þingmönnum.
    Ég hef ítrekað á síðustu tveimur árum beðið um að það fyrirkomulag sé viðhaft að hver þingflokkur fái í hendur eitt eintak af öllum skýrslum Ríkisendurskoðunar og þær séu til í þingflokksherbergjum en það hefur af einhverjum ástæðum ekki verið hægt að framkvæma. Einstaka þingmenn fá þetta í hendur en þær eru ekki sendar til þingflokka og alls ekki allar skýrslur. Staða Ríkisendurskoðunar mundi styrkjast verulega frá því sem er ef við hefðum þennan háttinn á og staða Alþingis, staða löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu mundi styrkjast verulega ef við fengjum allar þessar skýrslur og tækjum þær til eðlilegrar umræðu því þetta skiptir afar miklu máli um alla starfsemi ríkisins í framtíðinni.