Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 11:29:10 (3743)

[11:29]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar því sem hv. 4. þm. Suðurl. hefur hér sagt. Ég tel og það leiðir af sjálfu að vinna fjárln. Alþingis og framkvæmd hennar er undirstaða þess að þetta þjóðfélag sé rekið með sómasamlegum hætti. Ríkisendurskoðun er það afl sem á að sjá um að svo sé. Ég vil taka það strax fram að ég tel að það hafi verið til mikilla bóta, átti enda nokkurn þátt í því, að staða Ríkisendurskoðunar væri aðskilin frá Alþingi í meira mæli en var. En eins og allir vita tók Ríkisendurskoðun töluverðan þátt í því og raunar mikinn að setja saman fjárlög. Ég held að það hafi verið góð stefnubreyting þegar þessir tveir aðilar voru aðskildir.
    Ég tel að Ríkisendurskoðun sé prýðilega rekið fyrirtæki og hef ekki mikið við þá vinnu að athuga sem þar fer fram. Það sem ég held að sé miklu meiri vandi Alþingis er að fjárln. er ekki nógu burðug. Þegar Ríkisendurskoðun var fjarlægð, ef svo má segja, frá gerð fjárlaga þá hefði þurft að ráða fólk í staðinn til þess að vinna með fjárln. en svo var ekki gert og einungis einn maður er þar starfandi. Það segir sig auðvitað sjálft að það er algjörlega ófullnægjandi. Störf fjárln. eru losaraleg, við verðum að viðurkenna það, menn hafa annað hugarfar gagnvart gerð fjárlaga á hinu háa Alþingi en ég hef kynnst t.d. í þjóðþingum erlendis. Þar er sá háttur hafður á að til þessarar virðulegustu nefndar hvers þjóðþings eru valdir þjálfaðir og þrautreyndir þingmenn og þar er flokkapólitík ekki eins áberandi og í öðrum störfum þinganna. Menn telja að gerð fjárlaga sé á ábyrgð alls þingsins og þó að vitaskuld skeri meiri hluti úr um stefnumál sem eru af einhverri stærðargráðu þá virðir minni hlutinn það að sjálfsögðu en hann afsalar sér ekki þeim rétti að setja landinu fjárlög. Ég held þess vegna að Ríkisendurskoðun eigi stundum dálítið erfitt gagnvart hv. fjárln. vegna þess að vinnubrögð okkar eru ekki til fyrirmyndar þar, að mínu mati, vegna þess einfaldlega að okkur vantar þar starfslið. Þingmenn ráða hreinlega ekki við þau hversu vel sem þeir vinna og hversu mikið sem þeir reyna að ná yfir alla þætti samfélagsins. Þarna verður að koma til starfslið og það er á ábyrgð Alþingis sem Ríkisendurskoðun heyrir undir að svo verði gert. Ég held þess vegna að við á hinu háa Alþingi stöndum miklu veikar en Ríkisendurskoðun sem ég held að vinni sitt verk af mestu samviskusemi.
    Það er alveg hárrétt sem hv. 4. þm. Suðurl. sagði áðan að þær skýrslur eru gerðar sem ekki koma fyrir augu þingmanna. Það er auðvitað óásættanlegt. Allt sem viðkemur ríkisfjármálum á að vera opið fyrir hverjum þeim sem það vill kynna sér og það er engin afsökun fyrir því að leyna slíkum skýrslum. Það má ekki gerast.
    Við höfum orðið vitni að því í hv. fjárln. að ágreiningur er milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. um gerð ríkisreiknings. Við höfum margsinnis klifað á því í ræðustól og í nefndinni að til þess að þingmenn geti fylgst með ríkisfjármálum, sem auðvitað allir þingmenn eiga að gera og ekki einungis þeir sem sitja í hv. fjárln., þá þarf ríkisreikningurinn að vera sambærilegur við fjárlög. Það vantar mikið á að svo sé og um þetta hafa staðið deilur. Ég hef sjálf gagnrýnt harðlega hvernig frá er gengið, annars vegar ríkisreikningi og hins vegar fjárlögunum. Nýlega birtust okkur þær fréttir í fjölmiðlum eftir að við vorum þegar búin að afgreiða ein fjáraukalög að nú sé ríkisbúskapurinn svo miklu betri að það kunni að nema 2 milljörðum. Þetta er alveg fullkomlega fáránlegt og segir okkur hversu nákvæmlega þessi vinna er unnin.
    Við höfum fengið þær upplýsingar hvað eftir annað að nefnd hafi verið sett í málið til að reyna að samræma þetta tvennt: Ríkisreikning og fjárlögin. Sú nefnd mun hafa setið á ótal fundum og nýlega var mér svarað því til að þess væri að vænta að hún skilaði af séráliti. Nú geri ég mér grein fyrir að auðvitað er ekkert óumdeilanlegt í bókhaldi og það vita þeir sem betur eru að sér í því en ég en hitt er annað mál að það er óásættanlegt að við getum ekki verið sæmilega læs á ríkisreikning.
    Þessi mál eru öll í skoðun en ég tel um leið og ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir sína ræðu og Ríkisendurskoðun fyrir þessa skýrslu að það sem standi upp á hið háa Alþingi sé að búa betur að hv. fjárln. Ég vil endurtaka það að ég hygg að Ríkisendurskoðun eigi stundum dálítið erfitt í samskiptum sínum við nefndina vegna þess einfaldlega að þar eru mál ekki eins og þau ættu að vera. Ég held að það sé afar mikilvægt að þessar tvær stofnanir styrkist hvor um sig og ég held að við þurfum í hv. fjárln. að vinna að því að nefndin geti haft samskipti við Ríkisendurskoðun á meiri jafnréttisgrundvelli en nú er.
    Þetta vildi ég segja um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög mikilsverða og vænti

þess að við eigum áfram gott samstarf við virðulegan ríkisendurskoðanda og embætti hans og reynumst þess verðug að þau samskipti megi vera sem best má verða.