Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 11:50:31 (3746)

[11:50]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1992. Þær umræður hafa verið að mínum dómi efnislegar og hófsamlegar og allt gott um þær að segja í flestum atriðum.
    Í máli nokkurra ræðumanna hefur komið fram að það sé tiltölulega ómótað hvernig skuli haldið á skýrslum af hálfu Alþingis sem Ríkisendurskoðun gerir um einstaka þætti í starfsemi ríkisins og ríkisfjármála og hvernig eigi að fylgja þeim málum eftir. Þessi gagnrýni á nokkurn rétt á sér, einkanlega að því er tekur til liðins tíma, en eins og ég greindi frá í minni framsöguræðu hefur forsætisnefnd ákveðið að skýrslur Ríkisendurskoðunar skuli sendast til þingnefnda, þær sem snerta beint fjármál ríkisins og falla með þeim hætti undir fjárln., séu sendar þangað þar sem fjallað er um tiltekin fagmálefni eins og nefna má t.d. skýrslu um svokallað Hrafnsmál sem hér var til umræðu á síðasta þingi, fari til fagnefnda eftir efni máls hverju sinni en sú skýrsla fór til menntmn. Eftir að nefnd hefur fjallað um skýrslu á það að vera opið að taka slíkar skýrslur til umræðu hér í þingsal eftir því sem tilefni eða ástæða þykir til.
    Ýmsar skýrslur eru vitaskuld þannig að það er ekki sérstök ástæða til að taka þær til almennrar umræðu af hálfu þingsins enda eru skýrslur það margar að það mundi taka ærinn tíma ef að því væri horfið með allar skýrslur. Ég tel að með þessum hætti sé af hálfu forsætisnefndar mótuð stefna um betri meðferð þessara mála heldur en verið hefur og vænti ég þess að með því sé nokkuð svarað þeirri eðlilegu gagnrýni sem hér hefur komið fram á hvernig þessu hefur verið hagað til þessa. Það kom fram hjá hv. 4. þm. Suðurl. að einstakir þingmenn eða þingnefndir veigri sér við að biðja um skýrslu um tiltekna ríkisstofnun eða tiltekinn þátt ríkisstarfseminnar vegna þess að það sé litið svo á að beiðni feli í sér ásökun um fjármálalegt misferli eða eitthvað sé að í rekstri slíkrar stofnunar. Ég held að við eigum ekki að rækta þess háttar hugarfar og ég get getið þess að í starfi okkar yfirskoðunarmanna ríkisreiknings höfum við tekið upp þá starfshætti sem ekki er endilega skylt samkvæmt því starfi sem okkur er ætlað að taka fyrir tiltekin svið

ríkisrekstrarins og kynna okkur þau mál betur en önnur og fara að heimsækja stofnanir. Þetta höfum við gert og ég hef tekið það fram að þær stofnanir séu ekki valdar með það í huga að þar sé einhverja sökudólga að finna eða við teljum að þar sé eitthvað að í rekstri þeirra stofnana sem við heimsækjum heldur er það þáttur í því að við séum færari til þess að fást við okkar starf og auka þekkingu okkar á þeirri starfsemi sem fram fer á þeim sviðum ríkisrekstrarins. Þannig getur verið tilefni til þess að biðja um skýrslu um tiltekna þætti í starfsemi ríkisins þótt í því sé ekki verið að gera því skóna eða láta liggja að því að þar sé eitthvað meiri háttar að. Ég tek því út af fyrir sig undir að það á ekki að vera samhengi á milli beiðni um skýrslu og einhverrar ásökunar í garð þeirra sem athugun beinist að.
    Það hefur komið fram að ekki sé nægilega greiður gangur á milli Ríkisendurskoðunar annars vegar og Alþingis hins vegar. Ég tel að hinar venjulegu skýrslur Ríkisendurskoðunar eigi og þær berist yfirleitt Alþingi og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þingflokkarnir hafi í sínu herbergi eitt eintak af slíkum skýrslum. Ég vek athygli á því að greinargerðir sem unnar eru af Ríkisendurskoðun og jafnvel unnar af verktökum á vegum Ríkisendurskoðunar eru ekki allar sendar út. Sumpart eru það greinargerðir sem við yfirskoðunarmenn biðjum um í starfi okkar. Ég held að við höfum spurt 193 spurninga um hin afbrigðilegustu atriði í ríkisrekstrinum í starfi okkar á síðasta ári og við fáum greinargerðir sem svarar hverri einustu spurningu. Allar slíkar greinargerðir eru í það mörgum og miklum smáatriðum að ég tel að þær eigi ekki erindi til Alþingis og Alþingi verði að treysta því að þeir menn sem Alþingi kýs sem yfirskoðunarmenn, að fela þeim að fara ofan í slík smáatriði. Sömu sögu er í rauninni að segja um starfsmenn Ríkisendurskoðunar að Alþingi verður að treysta þeim til þess að fara ofan í smáatriðin sem ekki rúmast öll í skýrslum sem sendar eru þinginu.
    Ég gat þess í minni framsöguræðu að með tilliti til þess að forsætisnefnd hefur ákveðið að einstakar fagskýrslur Ríkisendurskoðunar skuli sendar til þingnefnda og á þeim haldið með þeim hætti sem ég hef lýst þá sé þessi umræða tæpast til þess að fara ofan í slíkar skýrslur heldur voru það tilmæli mín fyrir hönd forsætisnefndar að þessari umræðu yrði haldið nokkurn veginn við það verkefni að ræða þá starfsskýrslu og heildarstarfsemi sem fram fer af hálfu stofnunarinnar og þá einkanlega að því er lýtur að árinu 1992. Ég tel þess vegna að það sé tæpast umræðuefni undir þessum dagskrárlið t.d. að fjalla um einstakar skýrslur sem hér hafa verið nefndar sem á að vera hægt að taka til sérstakrar meðferðar undir öðrum dagskrárlið eða þá sérstökum dagskrárliðum. Ég tel t.d. að þau deilumál sem staðið hafa á milli fjmrn. annars vegar og Ríkisendurskoðunar hins vegar sem ég hef tekið þátt í umræðum um í mörg ár og haldið þar fram tilteknum og afdráttarlausum skoðunum. Ég tel t.d. að þau mál eigi tæpast erindi undir þessum dagskrárlið. Á hinn bóginn er það eðlilegt umræðuefni Alþingis þegar fram verður haldið umræðu um frv. hæstv. ríkisstjórnar um staðfestingu á ríkisreikningnum fyrir árið 1992 og þá kemur til umræðu jafnframt skýrsla yfirskoðunarmanna og Ríkisendurskoðunar varðandi þann ríkisreikning. Undir þann dagskrárlið mundu einnig falla þær athugasemdir sem fram komu hér frá hv. 1. þm. Austurl., t.d. að því er varðar innheimtumál en að innheimtumálum og skattsvikum er verulega vikið í þeirri skýrslu og eðlilegt að þau mál séu tekin til umræðu undir þeim dagskrárlið sem væntanlega verður fram haldið innan skamms.
    Sömu sögu er í rauninni að segja um það sem hv. þm. fjallaði um sölu ríkisfyrirtækja og þarf ég ekki að orðlengja það annað en í þeirri skýrslu eru gerðar athugasemdir varðandi meðferð að því er lýtur að því sérstaka fyrirtæki sem hv. þm. nefndi. Ég mun því ekki í umræðum um þessa starfsskýrslu fjalla um slík einstök atriði sem að mínum dómi eiga heima undir öðrum dagskrárliðum. Ég vil hins vegar flytja hv. þm. þakkir fyrir þeirra innlegg í þessa umræðu. Ég er þakklátur fyrir þau viðurkenningarorð sem hafa fallið, t.d. frá hv. 2. þm. Austurl. um starf Ríkisendurskoðunar og mikilvægi þess að það starf sé metið af Alþingi og mikilvægi þess jafnframt að traust ríki á störfum Ríkisendurskoðunar. Ég tel að Ríkisendurskoðun hafi auðnast að halda þannig á málum að það traust sé sterkt, hafi raunar fremur farið vaxandi en hið gagnstæða.
    Ég get ekki hér sagt eitt eða neitt um hvernig samskiptum er háttað milli hv. fjárln. og Ríkisendurskoðunar sem hér hefur verið aðeins dregið inn í umræðuna. Ég læt þess getið að meðan ég sat í þeirri þingnefnd þá lít ég svo á að þau samskipti hafi verið í ágætu lagi og að ekki hafi skort á upplýsingar af hálfu Ríkisendurskoðunar til fjárln. á þeim tíma og að samstarf og stundum samráð er laut að upplýsingaöflun varðandi hin einstöku vandamál sem snertir starf fjárln. hafi þá verið í ágætu lagi. Ég þekki auðvitað ekki hvernig því er háttað nú en ég á ekki von á öðru en ef einhverjir misbrestir séu þar á þá sé það mál sem auðvelt sé að bæta úr.
    Að þessum orðum mæltum vil ég einungis þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og undirstrika að hlutverk Ríkisendurskoðunar er mikilvægt. Hún er afar mikilvæg eftirlitsstofnun sem hefur það hlutverk að styrkja stöðu Alþingis og veita handhöfum framkvæmdarvaldsins aðhald. Um leið hefur hún orðið til þess að á málum er nú haldið betur en áður hefur verið gert að ýmsu leyti. Það verður því seint of mikil áhersla lögð á að hlutverk þessarar stofnunar er okkur ákaflega mikilvægt.