Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1992

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 12:05:18 (3747)


[12:05]

     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka forsætisnefnd fyrir að taka þá ákvörðun að senda skýrslu Ríkisendurskoðunar til fagnefnda og þar með talið fjárln. þar sem ég á sæti. En ég held að það þurfi bara að gera miklu, miklu meira. Ég held að það þurfi að ákveða með hvaða hætti skýrslurnar eru teknar fyrir í nefndum. Auðvitað má segja að það sé ákvörðun hverrar nefndar að hún ákveði það sjálf með hvaða hætti hún fjallar um skýrsluna en miðað við reynslu okkar úr fjárln. tel ég að það sé nauðsynlegt að hv. forsætisnefnd sendi okkur hreinlega starfslýsingu með hvaða hætti við skulum taka þessar skýrslur fyrir og síðan með hvaða hætti niðurstöður skýrslanna eru meðhöndlaðar og eftirlit fjárln. eða annarra nefnda þingsins með því hvernig viðkomandi stofnun sem er verið að fjalla um fer með niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Ég tel að hver sú beiðni sem berst til Ríkisendurskoðunar um úttekt á fjárhagsmálefnum ríkisins eða einstakra ríkisstofnana og skýrslur sem verða til eða yfirlit sem verða til hjá Ríkisendurskoðun í framhaldi af því eigi að berast fjárln. Og ég tel reyndar að það sé alls ekki hægt að neita hv. þingmönnum um þær upplýsingar sem þeir biðja um og liggja fyrir í gögnum hjá Ríkisendurskoðun og snerta beint fjárhagsmálefni ríkisins eða ríkisstofnana. Um samskipti fjárln. og Ríkisendurskoðunar er það að segja að þau eru í dag allt of lítil. Eins og ég sagði áðan þá er það þannig að Ríkisendurskoðun kemur og fer í stuttu máli yfir sínar skýrslur en önnur eru þau nánast ekki nema einstaka þingmenn hafi sent beiðnir til Ríkisendurskoðunar og fengið mjög góð viðbrögð og það er ekki við Ríkisendurskoðun að sakast.