Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:05:01 (3771)


[15:05]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Það er afar sérkennilegt mál og mjög umhugsunarvert fyrir okkur alþingismenn sem hér er til umræðu og þá ekki síst vegna þeirra dóma sem fallið hafa og leitt hafa í ljós hve þær lagagreinar sem hér eru einkum til umræðu virðast vera óljósar. En það verður að vísa ábyrgð af því á hendur ríkisstjórninni því sl. vor, eins og menn minnast, lá hér fyrir frv. sem hefði tekið af öll tvímæli hefði það verið samþykkt, en það mál var stöðvað vegna deilna í ríkisstjórninni. Við minnumst þess líka að á síðustu dögunum fyrir jól var lagt fram frv. til breytinga á búvörulögum og þar mátti ekki orði hagga. Þar var verið að lögfesta samkomulag stjórnarflokkanna og er nú greinilegt að það mál er að endurtaka sig. Hér er verið að lögfesta samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna þar sem er tiltekið nákvæmlega til hvaða vöruflokka og einstakra vörutegunda heimild landbrh. nær.
    Þetta er allt mjög umhugsunarvert og ekki síst að velta því fyrir sér hvað liggur hér að baki. Hvers vegna hefur það gerst nú á tæpu einu ári að landbúnaðarmálin hafa orðið að slíku gríðarlegu deilumáli og þá einkum það sem snýr að innflutningi á landbúnaðarvörum? Það er auðvitað hægt að rekja þær deilur, eins og hér hefur komið fram, til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem að hluta til opnar fyrir innflutningi og ekki síður er það hinn væntanlegi GATT-samningur sem mun gerbreyta því umhverfi sem íslenskur landbúnaður býr við.
    En það liggja á bak við þessar deilur ýmsar mismunandi hugmyndir, afstaða til landbúnaðarins og stöðu hans, þeirrar verndar sem hann hefur vissulega notið. Það eru líka að vefjast fyrir mönnum spurningar um viðskiptafrelsi og hve langt skuli gengið í því. Menn eru líka að velta fyrir sér spurningum um hag neytenda og mér virðist að þeir sem hæst tala um hag neytenda og lækkun vöruverðs hugsi nú ekki dæmið til enda. Þá á ég við að þegar menn eru að tala hér um að auka innflutning á landbúnaðarvörum þá þýðir það auðvitað aukna samkeppni við íslenskan landbúnað og spurningin er auðvitað: Er hann fær til þess að mæta honum? Þarf íslenskur landbúnaður ekki að fá ákveðinn aðlögunartíma? Hvað á að verða um atvinnu þess fólks sem vinnur við landbúnað, öryggi í matvælaframleiðslu o.s.frv.? Ég held að menn geri stundum of mikið úr þeim hagsbótum neytenda sem fengjust af innflutningi landbúnaðarvara. Ég get nefnt það hér að ég var stödd í Frakklandi fyrir skömmu og gekk þar inn í kjötbúð til að skoða verð á hinu niðurgreidda EB-kjöti. Ég sá nú ekki betur en það væri rándýrt. Það var á mjög svipuðu verði og jafnvel dýrara heldur en hér, nýtt kjöt, ófrosið kjöt. Þannig að ég held að menn þurfi að hugsa þetta dæmi til enda.
    En þar fyrir vil ég ítreka þá skoðun mína að ég held að íslenskur landbúnaður hafi gott af nokkurri samkeppni, en okkur ber auðvitað að standa vörð um vinnuna í landinu og okkar öryggi og ekki síst það að okkar menningarlegu rætur byggja að miklum hluta á landbúnaðarsamfélaginu. Við þurfum fyrst og fremst að vita hvað við erum að gera og við hljótum að þurfa að tryggja ákveðna og hægfara aðlögun að því sem koma skal. En eins og við vitum verður því ekki breytt að við stöndum frammi fyrir þessum samningum og þurfum að reyna að vinna eins vel úr þeim og við mögulega getum.
    Það hafa mörg orð fallið í þessari umræðu sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á, mörg furðuleg ummæli þar sem m.a. koma við sögu ráðherrar ríkisstjórnarinnar og því miður hæstv. forseti þingsins. Þar hafa orð verið látin falla sem ég tel ekki hæfa að segja um Alþingi Íslendinga. Það er látið í veðri vaka að þingmenn viti ekki hvað þeir eru að gera, frumvörpum sé lætt í gegnum þingið o.s.frv. Ráðherrar héldu

því fram um leið og dómur Hæstaréttar var fallinn að lögin eins og þau væru núna, eftir breytingarnar sem gerðar voru fyrir jól, tryggðu forræði landbrh. og hans forræði yfir innflutningi. Ég dreg það stórlega í efa, enda hafa menn ekki séð sér annað fært en að koma hér með nýtt frv. til þess að tryggja að forræði landbrh. yfir þessum ákveðnu vörum, sem hér eru tilteknar, sé þó ákveðið. En ég held að við í landbn. þurfum að fara mjög rækilega yfir þetta mál og lesa lögin í samhengi, með þeim breytingum sem á þeim hafa verið gerðar, og nú þarf að vinna verkið það vel að það sé algerlega óyggjandi að lögin séu í samræmi við vilja Alþingis.
    Ég hef sjálf lýst því hér í umræðum um þessi búvörulög að ég er í hjarta mínu ekkert sannfærð um að það eigi að skipa málum með þessum hætti. En það hefur veri bent á það að á Norðurlöndunum er forræði innflutningsmála landbúnaðarvara hjá landbrn. Ég teldi stjórnskipulega eðlilegra að forræði innflutningsmála sé hjá einu ráðuneyti, en ég get vissulega viðurkennt að sérstaða landbúnaðarins er mikil.
    Út úr þessu frv. og þeim aðdraganda sem að því er les ég það nú fyrst og fremst að hér er verið að gera 11 mánaða vopnahlé í ríkisstjórninni, en það er spurning hvort það stenst. Ráðherrar hafa lýst því yfir að með þessu lagafrv. sé verið að tryggja óbreytt ástand. En þegar maður fer að glugga í frv. og lesa viðaukann sem fylgir frv., þá vakna ýmsar spurningar. Í athugasemdum við lagafrv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Um er að ræða sömu skilgreiningu og sömu vöruflokka og koma fram í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 401/1993, um takmörkun á innflutningi landbúnaðarvara.``
    Svo segir í athugasemdum. En þetta er bara ekki rétt. Þegar farið er að lesa saman viðaukann hér í frv. og reglugerð nr. 401 þá er hér að finna vöruflokka sem alls ekki eru í reglugerðinni. Þar er um að ræða matvæli úr belgdu eða steiktu korni o.s.frv. Brauð, sætabrauð, súpur og seyði, svo að ég fari nú ekki að lesa upp alla þessa vöruflokka, og reyndar eru hér furðulegustu vörur eins og lyfjahylki og innsiglunaroblátur. Ég hefði nú haldið að þetta ætti jafnvel að heyra undir kirkjumálaráðuneytið. Og spurningin er: Hvað er hér á ferð? Hvernig stendur á þessu? Þessara vöruflokka er að engu getið í þessari reglugerð sem hér er vísað til. Af hverju hefur þessu verið bætt inn í og hvað koma þessir vöruflokkar málinu við? Mér finnst að hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. þurfi að skýra þetta. Þetta er bara einfaldlega rangt. Það er rangt sem stendur í athugasemdum við frv. og það þarf auðvitað að kanna hvað er hér á ferð. Ég las þessa tollskrá hér mjög rækilega og bar hana saman við reglugerðina og hér er auðvitað að finna ýmislegt furðulegt. Ég ætla ekki að halda því fram að hæstv. landbrh. ætli að fara að beita hér einhverjum bönnum gagnvart vörum sem hingað til hafa verið fluttar inn óáreitt, en þetta vekur auðvitað ýmsar spurningar og þá ekki síst gagnvart því reglugerðarvaldi eða leyfisveitingarvaldi sem verið er að færa til hæstv. landbrh. með frv. Hvernig á að beita því, hvernig ber að skilja þetta? Hvernig ber að skilja þetta gagnvart vörum sem hingað til hafa ekki verið háðar leyfisveitingum? Mér er ekki kunnugt um að þessir vöruflokkar sem ég nefndi áðan, og það má bæta við pasta og fleiru, hafi sérstaklega verið háðir leyfi landbrh. Ætla menn sem sagt að setja þarna upp eitthvert leyfisveitingarkerfi eða ætla menn bara að horfa í gegnum fingur sér með það að menn hafi ekki leyfi til þessa innflutnings næstu 11 mánuðina? Hver er eiginlega hugsunin í þessu af hálfu ríkisstjórnarinnar?
    Landbn. barst fyrir skömmu minnisblað frá Magnúsi K. Hannessyni dósent við Háskóla Íslands sem var kallaður til vegna þeirra frumvarpsdraga sem kynnt voru í landbn. og sjálf efnisgreinin, 1. gr. frv., hefur ekkert breyst frá efnisdrögum. Það er fyrst og fremst viðaukinn sem hefur breyst. Í þessu minnisblaði til landbn. bendir Magnús einmitt á ýmis atriði sem þarf að kanna rækilega. Hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, benti einmitt á það atriði hve auðvelt er að breyta tollskrárnúmerum. Magnús nefnir einmitt þetta á þessu minnisblaði sínu. Hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Sú aðferð að telja upp tollskrárnúmer til að ákvarða vöru sem bannað er að flytja inn í landið hefur þann kost að menn vita nákvæmlega hvaða vörur þetta eru. Ókostirnir eru þeir helstir að auðvelt er að breyta tollflokkun hvað síðustu tvo tölustafinu varðar og gæti það raskað þeim grundvelli sem bannið væri byggt á. Verði þessi leið farin,`` þ.e. að hafa þennan viðauka í frv., ,,yrði að koma nákvæmlega fram í lagaákvæðinu að miðað væri við tollskrá eins og hún var á tilteknum degi.``
    Hann bendir einnig á hve hugtakið landbúnaðarvörur er illa skilgreint í núgildandi lögum og það er einmitt það sem við þyrftum að huga að í landbn., hvernig þetta kemur allt heim og saman, skilningur laganna á hugtakinu landbúnaðarvörur og svo þessi viðauki sem fylgir frv.
    Hann nefnir líka sérstaklega vald ráðherra til leyfisveitinga og bendir á að það kemur ekkert fram hvernig með það skuli farið. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvernig hann hyggst beita þessu valdi eða er hér fyrst og fremt um það að ræða að menn ætla að láta þetta hjakka í sama farinu næstu 11 mánuðina? Því það er varla ætlunin að fara að beita hér eitthvað strangari innflutningshömlum en verið hefur.
    Það sem vert er að vekja athygli á í sambandi við þær breytingar sem hér eru á ferð er að rifja upp þær röksemdir bænda sem fram komu þegar breytingarnar voru til umræðu hér fyrir jólin, þá var tekið út úr lögunum allt samráð við bændur. Samráð við bændur er ekki lengur að finna í lögunum, en reyndar samkvæmt 52. gr. búvörulaganna gildir það auðvitað áfram að það þarf að leita til Framleiðsluráðs. En

ég ítreka það að hér er fyrst og fremst verið að lögfesta enn eitt samkomulagið í ríkisstjórnarflokkunum og það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en þannig að hér er um að ræða lagasetningu til 11 mánaða. Og hvers konar vinnubrögð eru þetta gagnvart Alþingi? Hvað á svona lagað að þýða? Eigum við ekki að vera að móta hér framtíðarstefnu í landbúnaðarmálum? Eigum við að miða lagasetningu hér á hinu háa Alþingi við rifrildi og deilur í ríkisstjórninni? Við hljótum auðvitað að þurfa að horfa til lengri tíma og taka mið af því ástandi sem við búum við núna og því sem fram undan er vegna þess ástands sem skapast mun í kjölfar GATT-samningsins. Og ég vil benda á það að það kemur fram í frv. að ríkisstjórnin ætlar að skipa nefnd fjögurra ráðuneyta, frekar en þau séu fimm, til þess að undirbúa aðlögun að GATT-samningnum. Væri nú ekki nær að kalla stjórnarandstöðuflokkana með í slíkan undirbúning? Væri ekki nær að Alþingi kæmi að því máli og við ynnum hér í sameiningu að stefnumótun til þess að ná hér breiðu samkomulagi um það hvernig landbúnaðurinn geti aðlagað sig þessum breytingum? Við höfum horft upp á það í hverju málinu á fætur öðru að ríkisstjórnin hleypir stjórnarandstöðunni hvergi að og ég held að svo sannarlega væri tími til kominn að hún lærði nú af eigin mistökum og að í þessu mikilvæga og alvarlega máli stæðum við saman að því að móta stefnu til frambúðar í stað þess að vera að lögfesta hér aftur og aftur niðurstöðu af deilum og rifrildum ráðherra ríkisstjórnarinnar.