Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:41:01 (3776)


[15:41]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér heyrðist á lokakafla ræðu hæstv. ráðherra að þekking hans á íslenskum landbúnaði takmarkaðist við þátt sem var fluttur hér í sjónvarpinu á sunnudagskvöldið fyrir rúmri viku. Hann talaði um kotbúskap og það þyrfti framleiðniaukningu. Þá vil ég benda hæstv. ráðherra á það að á 10 ára tímabili, og á ég við mjólkurframleiðsluna, hefur framleiðendum fækkað úr 2.000 í 1.400, framleiðslan hefur nokkuð staðið í stað, verðið til bænda hefur lækkað um 20%, verð til neytenda hefur lækkað eitthvað álíka og nú vil ég biðja hæstv. ráðherra að nefna mér þá atvinnugrein á Íslandi þar sem hefur verið meiri framleiðniaukning á þessu árabili. ( StG: Gerðu samanburð við ráðherrana.) Þetta er, virðulegur forseti, algerlega ábyrgðarlaust tal hjá hæstv. ráðherra.
    Sá sem hér stendur hefur verið talsmaður breytinga og hefur barist fyrir ákveðnum breytingum sem hafa náð fram að ganga sem hafa m.a. leitt af sér þá þróun sem ég er hér að nefna fyrir ráðherrann. Síðan kemur hæstv. ráðherra upp með fullyrðingar eins og hann gerði hér áðan. Það er ekki samboðið ráðherra í ríkisstjórn Íslands að fara með þvílíkan þvætting eins og hér var á borð borinn og ég vil í því sambandi nefna einnig að ráðherrann ætti ekki að nefna virðingu Alþingis í þeim samanburði við þann skrípaleik sem hefur átt sér stað af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað þetta mál snertir.
    Að lokum spyr ég ráðherrann: Er hann sammála því sem hæstv. umhvrh. sagði í umræðunni í síðustu viku að vegna fordæmisins væri líklegt að það yrði landbrh. sem færi með forræðið þegar kæmi að tollígildum vegna GATT? Þetta eru tvær spurningar: Ég vil biðja hæstv. ráðherra að nefna mér atvinnugrein þar sem hefur orðið meiri framleiðniaukning en hefur verið í mjólkurframleiðslu og úrvinnslu á síðustu árum og síðan varðandi viðhorf umhvrh.