Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:48:01 (3779)


[15:48]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru alveg stórfurðuleg ummæli hjá hæstv. utanrrh. að staða þessa máls sé algerlega óviðkomandi þeirri forræðisdeilu sem staðið hefur um forræði fyrir innflutnings- og útflutningsmálum búvara. Það eru furðuleg ummæli vegna þess að þá hefur hæstv. utanrrh. ekki áttað sig á því að hæstaréttardómurinn er að sjálfsögðu öðrum þræði forræðisúrskurður. Að sjálfsögðu er hann það, hæstv. utanrrh., vegna þess að hann hefur verkun í því sambandi. Það liggur í hlutarins eðli. Þó að deiluefnið sjálft sem dómurinn var að fást við í því einstaka tilviki væri afmarkað mál, þá er óhjákvæmilegt að horfa fram hjá verkun dómsins á þessa forræðisdeilu.
    Þegar hæstv. ráðherra segir að það sé skýrt í lögum hver fari með þetta forræði, þá spyr ég: Hvaða lögum? Er það í innflutningslögum? Ekki geta það verið búvörulögin. Ég fór rækilega yfir það hér að hvorki 3. gr., 52. gr. né 53. gr. né breytingarnar í desember eru tæmandi í því sambandi.
    Þá spyr ég hæstv. utanrrh. einfaldlega eftirfarandi tveggja spurninga:
    1. Er hæstv. utanrrh. tilbúinn til að koma hér í ræðustólinn og lýsa því yfir að almennt forræði málaflokksins, innflutningur og útflutningur búvöru, heyri undir landbrh. þrátt fyrir ákvæði laga nr. 88/1992, um innflutning?
    2. Ef svarið er já, er þá hæstv. landbrh. tilbúinn til að styðja það að það verði lögfest hér með skýrum hætti?