Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:50:01 (3780)


[15:50]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að endurtaka það sem ég sagði áðan að það er algert aukaatriði og reyndar óskylt mál þessu sem við nú ræðum þetta sífellda tal um forræði yfir málaflokkum. Þetta frv. tekur á praktískum vandamálum í framhaldi af lögunum frá því fyrir jól og í framhaldi af hæstaréttardómnum. Það kveður á um það að að því er varðar innflutning á þeim vörutegundum sem hér eru taldar upp og eru á annað borð leyfisbundnar eða skylt er að heimila innflutning á vegna milliríkjasamninga, því beri landbrh. að heimila innflutning á.
    Að því er varðar verðjöfnunargjöld, þá er einmitt vegna þess að hér er allt talið upp alveg ljóst að það er í höndum landbrh. að leggja á þessi verðjöfnunargjöld á þær vörutegundir sem hér eru taldar upp og heimilt er að flytja inn og framleiddar eru í landinu. Það er sú eina forræðisdeila sem kemur þessu máli við. Ef menn eru síðan að fara yfir lagasafnið og halda hér uppi seminar í stjórnlagafræðum þá geta menn bara lesið sér til um viðeigandi lagaákvæði um Stjórnarráð Íslands og um verkaskiptingu milli ráðuneyta eins og þau eru skilgreind í þeim lögum, í reglugerð um verkaskiptingu ráðuneyta og í ýmsum sérlögum sem kveða á um það. Ég vek t.d. athygli á því að samkvæmt slíkum lagaákvæðum og reglugerðarákvæðum fer ótvírætt utanrrn. með útflutningsmálefni.