Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:52:01 (3781)


[15:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú í raun og veru að verða held ég alveg nógu skýrt. Það er alveg ljóst af svörum eða öllu heldur hægt að segja kannski ekki svörum hæstv. utanrrh., þessum endalausu ekki svörum hæstv. ráðherra hér, hvernig málið liggur. Deila stjórnarflokkanna um þetta mál er algerlega óútkljáð. Hér kemur inn í þingið dulbúin bráðabirgðaredding, hrossakaup þeirra um að redda þessu svona næstu 11 mánuðina, að landbrh. náðarsamlegast fái leyfi til að leyfisbinda innflutninginn á tilteknum hluta tollskrárinnar í 11 mánuði en að öðru leyti er deila stjórnarflokkanna algerlega óútkljáð um þetta efni. Reyndar staðfesti hæstv. utanrrh. það að mínu mati mjög vel með því að með snyrtilegum hætti að minna á það að hvað útflutningsleiðina snertir þá snýr þetta þannig að þar er hið almenna forræði hjá utanrrh. en innflutningshliðin aftur hjá viðskrh. Ég lít svo á að þetta sé skýrt, einnig vegna viðbragða hæstv. landbrh. við máli mínu hér áðan.
    Þá er eftir það álitamál, hvað ætlar Alþingi að gera? Hvað ætlar hv. landbn. Alþingis að gera?

Hvað ætlar sómi vor, löggjafarsamkundan, að grípa til bragðs nú þegar þessi staða liggur orðið ljós fyrir? Ríkisstjórnin hefur ekki komist í gegnum þetta mál. Hún ýtir því til hliðar að útkljá hið almenna forræði málaflokksins og leysir þetta með þeim nokkuð svo sniðuga hætti út af fyrir sig að segja má að afgreiða það hver skuli fara með tiltekna hluta tollskrárinnar eins og þeir standa á hverjum tíma. Og mikið verður nú gaman að verða tollstjóri og geta farið að ráða lögum og lofum gegnum það að hringla svolítið til með hana. Alþingi verður sem sagt að taka af skarið og það reynir nú á hversu vel menn standa í lappirnar í þeim efnum. Ég reyndar leyfi mér að vona að hæstv. landbrh. hafi verið að lýsa því hér yfir að hann vilji styðja það að frá þessu verði gengið með ótvíræðum hætti hér í sinni fyrstu ræðu.