Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 15:54:01 (3782)


[15:54]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er undarleg árátta sumra þingmanna að vilja ekki ræða efnisatriði frv. sem fyrir liggur, heldur beina umræðunni sífellt að þeim málum sem ekki eru á dagskrá. ( SJS: Það er undarleg árátta að vilja ekki svara spurningum.) Það er líka undarlegt hjá hv. þm. að hann segir í sama stutta andsvarinu: Deilan um forræðið er óútkljáð milli stjórnarflokkanna. Síðan segir hann. Ja, ég er nú kominn að þeirri niðurstöðu að þetta sé alveg skýrt. ( SJS: Já, að hún er óútkljáð.) Það er ekkert tilefni til að efna hér til einhvers konar stjórnlagaþings um forræði ráðuneyta vegna þess að um það er engin deila eftir því sem ég best veit. Landbrh. fer t.d. með málefni landbrn., það er algerlega skýrt. Menn eru hins vegar svo viðjaðir í gamla hugsunarhætti búvörulaganna að þeir eru alltaf að spyrja um bannheimildirnar sínar. Þegar GATT tekur við að loknu þessu 11 mánaða millibilsástandi þá er það alveg ljóst að í hinu nýja liðskiptakerfi verða engin bönn og ekkert leyfisveitingavald. Landbrh. missir ekkert forræði yfir landbúnaðarmálum fyrir það. ( SJS: En innflutningi og útflutningi búvöru?) Ef menn eru að spyrja um verðjöfnunargjöldin, þá er það alveg skýrt sem hefur ekki verið skýrt áður. Landbrh. hefur valdið til þess að leggja verðjöfnunargjöld á þær vörur sem eru taldar upp í viðaukum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Ef menn eru að tala um tollskrána, þá er það alveg skýrt að fjmrh. er yfirmaður tollamála. ( GÁ: Hvað með skatt . . .  ?) Fjmrh. fer samkvæmt lögum og reglum með tollamál. Ég hef ekki heyrt neina tillögu uppi um að það eigi að búta tollskrána í sundur og tvístra henni út og suður á umhvrn., viðskrn., sjútvrn., landbrn., utanrrn. o.s.frv. ( GÁ: Þið eruð að því.) Nei, við erum ekki að því. Það er nefnilega nákvæmlega það. Ég vil bara biðja hv. þm. að fara nú að snúa sér að umræðuefninu og hætta þessum útúrsnúningum út og suður um óviðkomandi málefni. ( SJS: Hvernig væri að svara einföldum spurningum?) Það er búið að svara ykkar spurningum. ( SJS: Nei.)