Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:18:29 (3784)


[16:18]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. kallaði lögin sem Alþingi samþykkti hér fyrir jól, breytingu á lögum um búvörulög, moðsuðu. Hann hefur ekki fært nein rök fyrir því. Ég veit ekki betur en þau lög hafi verið skýr og nái prýðilega þeim markmiðum sem menn settu sér. Nefnilega að afla landbrh. lagaheimildar til þess að efna milliríkjasamning um innflutning og að afla honum heimildar til þess að leggja á verðjöfnunargjöld þegar það á við. Það sem var moðsuða, hv. þm., og var hnekkt með hæstaréttardómi voru gömlu búvörulögin sem sett voru hér 1985 og skilningi þingmanna Framsfl. og reyndar ýmissa annarra á þeim lögum. Það var þeirri moðsuðu sem var hnekkt. Ég minnist þess reyndar að þegar þau lög voru sett þá flutti sá sem hér stendur frávísunartillögu á þessa moðsuðu og færði fyrir því þau rök að þetta væri meira að segja mestan part brot á stjórnarskránni sem hv. lögmaður Sigurður Líndal hefur skrifað á bók upp á 180 blaðsíður til þess að rökstyðja að er rétt skoðun. Það var moðsuða sem hefur verið hnekkt endanlega með hæstaréttardómi og síðan er búið að kveða upp yfir þeirri moðsuðu annan hæstaréttardóm sem heitir GATT-samkomulagið sem mun endanlega binda endi á þá moðsuðu.
    Lögin sem sett voru fyrir jólin eru skýr. Lagafrv. sem hér liggur fyrir er mjög skýrt þannig að það gefur ekki tilefni til að menn uppnefni það með þessum hætti.