Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 16:25:37 (3788)


[16:25]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú fram undan mikil umræða um það frv. sem hér er lagt fram. Í fyrsta lagi í landbn. Alþingis og síðan væntanlega í þinginu. Það er að sjálfsögðu að henni lokinni sem eðlilegt er að túlka niðurstöðu. En mér fannst samt við hæfi að segja hér örfá orð.
    Þá er fyrst rétt að árétta það sem reyndar hefur komið fram hvers vegna sá vandi er til kominn sem hér er sérstaklega til umræðu og er tilefni af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, þ.e. lagaákvæði sem síðast var afgreitt á Alþingi og samþykkt árið 1985, en ég hygg að hafi komið inn í búvörulögin, eins og þau eru kölluð núna á síðari árum, árið 1955. Það er því orðið nokkuð við aldur og það er athyglisvert að á grundvelli þessa ákvæðis hafa allir landbúnaðarráðherrar, a.m.k. á síðari tímum og ég geri ráð fyrir frá því að lögin voru upphaflega samþykkt, starfað. Landbúnaðarstefnan hafði þannig byggst á lagaákvæði sem

Hæstiréttur felldi svo úrskurð sinn á allt frá árinu 1955. Og það er út af fyrir sig tilefnið að þessu en ekki lagabreytingarnar frá því í desember sl.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson var hér með gamansemi og er þá kannski ástæða til þess að fara örfáum orðum um þátt hans og félaga hans, hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, í sambandi við tillöguflutning á síðustu dögum. Þingmaðurinn talaði um það að ég hefði haft orð á því á haustdögum, að ég hygg, að þegar legið væri í draglínum þá væri það háttur kúskanna að leysa frá ækinu. En málið er hins vegar það eins og einn góður framsóknarmaður, Ólafur Þ. Þórðarson, benti mér á að áður er dólað er í afturendann á þeim með písk eða svipu, fyrr er ekki leyst frá heldur en hægt er að miða áfram. Þetta er gott að hafa í huga þegar menn eru að tala í léttum og gamansömum tón um þessa hluti sem ekki er nema sjálfsagt öðru hverju.
    Virðulegi forseti. Framsóknarmennirnir tveir lögðu hér fram frv. um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er orðréttur sami texti og lá hér fyrir þinginu á vordögum sem frægt er orðið. Ég held satt að segja af því að ég þekki þessa menn báða afar vel að góðum skýrleika að þeir hafi ekki sjálfir tekið þennan tillöguflutning neitt alvarlega. Ástæðan er sú að frv. í meginatriðum og allt sem varðar þessa breyttu hætti í landbúnaði var afgreitt með lögunum í desember. Ástæðan fyrir því að þá þurfti ekki að taka lengri umræðu en raun bar vitni um og ástæðan fyrir því að ég lýsti því yfir að ég legði það til að frv. þá gengi fram óbreytt var sú að frv. ríkisstjórnarinnar í desember gekk lengra en tillögur landbn. frá því í vor. ( GÁ: Ekki segja lögmenn.) Það er niðurstaða málsins. Ég minni á það að í lögunum eins og þau eru, í frv. eins og það var afgreitt í desember, þá greiddu þingmenn Framsfl. eins og allir aðrir alþingismenn atkvæði með þeim þætti laganna eins og þau eru núna, frv. eins og það var þá, sem snertu efnishlið þessa máls og voru þeir menn að meiri að hafa fylgt málinu þá fram með þeim hætti.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson hefur m.a. talað um það að frv. hafi tekið af öll tvímæli í sambandi við forræði landbrh. Þótt það megi kannski einkennilegt teljast en í samræmi við það sem ég hef bent hér á áður þá þrengdi meiri hluti landbn. í tillögum sínum forræði landbrh. frá því sem það var í frv. ríkisstjórnarinnar eins og það kom fram í fyrravetur. Þar var skýrt kveðið á um, eins og hefur komið greinilega fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., að innflutningur, eða eins og það er orðað, með leyfi virðulegs forseta: ,,Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, er háður samþykki landbrh.`` Þessu var hins vegar breytt í tillögum meiri hluta landbn. og þrengt þannig að þar segir einnig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, sem jafnframt`` --- og taki menn nú eftir --- ,,sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbrh.``
    Völd landbrh. í brtt. landbn. voru skilyrt við þær vörur eða vörulíki sem framleidd væru á Íslandi. Það voru takmarkanir og þær voru gerðar að yfirlögðu ráði og skýrt greinilega í fyrravor. Tillögur landbn. voru háðar því að sams konar vörur væru framleiddar hér á landi.
    Það hefur líka verið talað um það að forræði landbrh. yfir þessum málum hefði verið skilgreint með nákvæmum hætti í tillögum landbn. Það vill hins vegar svo einkennilega til að í tillögum landbn. var tekið mið af því hvaða ákvarðanir höfðu verið teknar í þessum málum á Alþingi. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samráð skal haft milli fjmrn. og landbrn. um framkvæmd verðjöfnunar.``
    Stjórnsýslulega var þetta því allt þrengra og tekið tillit til þeirra laga sem voru í gildi en síðan hefur verið ákveðið og lögfest var í desember. Þannig að ef það á að taka tillöguflutning Framsfl. eitthvað alvarlega, sem ég auðvitað geri ekki, þá er það að þrengja þær hemildir sem landbrh. fékk í desember. ( Gripið fram í: Voðalegt bull er þetta.) Þetta er það sem framsóknarmenn hafa til þessara mála að leggja.
    Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að forræði þessara mála var tryggt með upphaflegu frv. landbrh. eins og það var þá lagt fram. Það er hárrétt hjá honum. Það sem bar á milli í sambandi við frv. landbrh. og afgreiðslu landbn. var að það voru engar heimildir í texta frv. landbrh. um framkvæmd verðjöfnunargjalda. Það var það sem út af stóð og það var breytingin sem landbn. gerði. Skal ég svo ekki elta frekar ólar við þingmenn Framsfl. út af þessu máli.
    Það sem skiptir máli í þessum efnum er það frv. sem hér hefur verið lagt fram af landbrh. og er til umræðu núna. Um það má að sjálfsögðu fara mörgum orðum. Það hefur komið fram hjá mér áður að mér finnst þessi lagatexti ekki vera neitt sérstaklega sniðugur og ég hefði vissulega kosið það . . .  ( GÁ: Hvaða texti?) Á frv. ríkisstjórnarinnar. Ég hefði frekar kosið það að forræðið hefði verið ákveðið og síðan hefðu vörurnar verið taldar upp í reglugerð en hér er ekki um neitt sérstakt nýmæli að ræða. Það er sams konar ákvæði í bæði tollalögum og lögum um vörugjöld þar sem tollnúmer eru talin upp í viðaukum. Hér er að því leyti ekki nýmæli á ferð og það er ómótmælt að þetta er út af fyrir sig óvefengjanlegt og alveg skýrt. Það er svo annað mál að í þessum efnum vakna ýmsar spurningar og það verður að sjálfsögðu hlutverk landbn. að skýra málið og fá svör við þeim spurningum.
    Menn tala hér um óbreytt ástand frá því í desember en ég er engan veginn viss um að svo sé. Ég satt að segja efa að hér sé um að ræða óbreytt ástand frá því í desember. Ég held að 72. gr. sé þrengd

óbeint. Þó að þessi lagagerningur snerti hana ekki þá held ég að 72. gr. og sá réttur sem landbrh. er fenginn þar sé þrengd. Úr þessu verður að sjálfsögðu skorið í umfjöllun landbn. um málið.
    Ég er líka þeirrar skoðunar og það er hvergi tekið fram í þessum lagatexta að hér sé um bráðabirgðalög að ræða og þau eigi að gilda til einhvers ákveðins tíma. Þannig að frv. sem slíkt og afgreiðsla þess hlýtur að taka mið af þeim aðstæðum sem nú eru og meðan ekki hafa komið fram aðrar tillögur í þessum efnum þá hlýtur málið að verða rætt á þeim grundvelli að þar sé ekki um báðabirgðalagaákvæði að ræða.
    Tími minn er senn búinn og eins og ég hef áður sagt er þessi umfjöllun hér að byrja. Ég vil hins vegar undirstrika það í lokin að þær breytingar sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir eru náttúrlega býsna víðtækar eins og hefur komið fram í þessari umræðu þar sem menn eru að víkja frá innflutningstakmörkunum yfir í það sem menn kalla innflutningshindranir. Við erum að færa okkur frá þeim ákvæðum sem 52. og 53. gr. búvörulaganna kveða á um. Þar eru réttindi landbúnaðarins í þessari stjórnsýslu ákveðin í núgildandi lögum og við erum að færa okkur yfir í umhverfi sem ákveðið er í 72. gr. búvörulaganna. Við þau ákvæði og þær ákvarðanir sem þar liggja fyrir koma þessi mál til með að þróast í næstu framtíð og það er að sjálfsögðu mikið grundvallaratriði að landbúnaðurinn og bændastéttin viti með trúverðugum hætti hvað snýr að þeim í þeim efnum. Þess vegna hlýtur það að vera eitt af viðfangsefnum landbn. að lesa þessar tvær lagagreinar vel saman og raunar kannski að líta á framkvæmdina frá því í desember því að ekki ætla ég að leyna því hér að mér finnst það fullkomlega óeðlilegt að tvö ráðuneyti skuli gefa út reglugerð sama daginn um sama efni og skipta málaflokkunum á milli sín. Þetta hlýtur að koma hér til umfjöllunar. Það er nefnilega svo að það virðist þurfa að breyta víðar en bara í landbúnaðinum. Ég held að það væri góður kostur að allt það smákóngasamfélag sem tekur við þessum málum í Stjórnarráði Íslands geri sér grein fyrir því hverjar þær breytingar eru sem íslenskur landbúnaður er að ganga í gegnum og geri sér grein fyrir því að þar eigi að vinna eftir þeim reglum sem eru lögin í landinu sem eru ákveðin hér á Alþingi Íslendinga. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að að því er þessi mál varðar núna, þá á ekki að tala í hálfkveðnum vísum heldur að kveða svo á að eftir því verði farið sem hér er ákveðið eins og auðvitað ber af þeim sem annast stjórnsýsluna í þessu landi.
    Ég get svo rétt aðeins getið þess að ég á ekki von á öðru en að greiðlega verði unnið í landbn. Alþingis. Fyrsti fundur okkar verður haldinn í fyrramálið og það hefur verið ákveðinn annar fundur á mánudag og síðan kemur okkar reglulegi fundur á þriðjudag. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að hinir hæfustu menn, löglærðir með góða reynslu, kæmu til viðræðu við nefndina og vona ég að þannig fáist góður grundvöllur að niðurstöðu í störfum landbn.