Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:18:34 (3802)


[17:18]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt að hæstv. landbrh. hefði verið hér inni þegar hæstv. utanrrh. var að segja að auðvitað væri það fjarstæða að láta sér detta í hug að landbrh. hefði eitthvað um verðjöfnunargjöld að segja. Það væri hæstv. fjmrh. að leggja þau á. Og mín orð vega nú ekki þungt miðað við það sem hæstv. utanrrh. segir sem hefur sýnt það að undanförnu hversu sterk tök hann hefur á landbúnaðarmálunum og er . . .  ( EgJ: Í hverju hefur það komið fram?) M.a. í undirbúningi þessa máls eins og ég rakti og hv. þm. var því miður ekki hér inni þegar ég talaði hér. Ég vil þá spyrja hæstv. landbrh. hvernig hann skilji þessi afdráttarlausu orð hæstv. utanrrh. að það sé fjarstæða að láta sér detta í hug að hæstv. landbrh. eigi að fjalla um jöfnunargjöld, það sé hæstv. fjmrh., um það þurfi ekkert að deila. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að lesa það sem hann sagði. Ég vænti þess að við getum fengið það fljótlega á blaði.