Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:48:47 (3810)


[17:48]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það frv. sem tveir þingmenn Framsfl. flytja hér var samkomulagsmál fulltrúa allra flokka í landbn. í fyrravor. ( Griðið fram í: Þriggja flokka.) Þriggja flokka. En naut stuðnings 50 þingmanna. Ef framsóknarmenn hefðu skrifað þetta frv. einir og sér þá reikna ég með að þeir hefðu e.t.v. orðað þetta ofurlítið öðruvísi.
    Hæstv. landbrh. er bara kátur í búrinu sínu. Hann þykist ekkert þurfa meira, hann vill ekkert meira. Hann unir sér þar. Hann breiðir upp fyrir haus. Hann þarf ekkert meira. Hann sættir sig við þetta. Hann er með bréf upp á vasann frá hæstv. forsrh. þar sem forsrh. fól honum eða ráðuneyti hans ákveðið verk. En það hefur aldrei verið farið svona með neinn landbrh. áður. Fyrrv. hæstv. landbrh. hafa fengið frið í sinni eigin ríkisstjórn til að halda reisn sinni.
    Hvernig dettur ykkur í huga að t.d. fyrrv. landbrh., Ingólfur Jónsson á Hellu hefði brugðist við ef t.d. þáv. foringi Alþfl. Gylfi Þ. Gíslason hefði rassskellt hann svona eða reynt að rassskella hann svona? Honum hefði aldrei tekist það þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir að á brattan væri að sækja þá hélt alltaf Ingólfur Jónsson sínum hlut og hlut landbúnaðarins fyrir ásóknum Alþfl. og var þó þáv. foringi Alþfl. miklu skæðari maður heldur en núv. formaður.