Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:50:57 (3811)


[17:50]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að hv. þm. nefndi ekki neitt það til sögunnar sem væri í tvísýnu eða hættu ef þetta frv. yrði samþykkt. Hann nefndi hvorki kjötvöru né mjólkurvöru einfaldlega vegna þess að hann kann ekki dæmi um neitt slíkt sem í hættu yrði.
    Hv. þm. heldur áfram að gera því skóna að þetta frv. fari illa með landbrh. Hann talaði um hér í fyrri ræðu sinni að ég yrði í gíslingu hjá fjmrh. og viðskrh. Samkvæmt þessu frv. sem Framsfl. flytur, eða tveir þingmenn hans, ætti með sama málflutningi landbrh. að vera í gíslingu fjmrh.
    Ég vil líka spyrja hv. þm. hvort hann hafi sagt það í fullkominni einlægni við sjálfan sig að fyrrv. landbrh. Jón Helgason og Steingrímur J. Sigfússon hafi fengið að halda reisn sinni fyrir hv. 1. þm. Norðurl. e., Páli Péturssyni? Ég er ekki viss um að svo sé. Ég er ekki sannfærður um að Páll Pétursson hafi verið ötulasti stuðningsmaður Jóns Helgasonar á meðan hann gegndi þessu embætti og hafi talið að Jón Helgason hafi gengið sérlega vel fram í því. Ég er heldur ekki sannfærður um að hv. þm. hafi verið mjög ánægður með síðasta landbrh., Steingrím J. Sigfússon, og fundist risið væri hátt á honum þegar hann skrifaði undir búvörusamningana. Þannig að ég hygg nú að þegar allt kemur til alls og þegar Páll Pétursson fer að gera þessa hluti upp við sjálfan sig þá megi ég vel una þeim samanburði í hans huga sem er á milli þessara þriggja landbrh.