Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:07:37 (3815)


[18:07]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú er eitthvað farið að hringsnúast í hugarheimi hæstv. ráðherra ef hann ber það á borð úr ræðustól að sá sem hér stendur ætli að fara að berjast á móti GATT. Það hefur mér aldrei dottið í hug. Og ég get vitnað í þingræður, hverja á fætur annarri þar sem ég hef lýst því yfir að við hljótum að vera aðilar að GATT vegna þeirra hagsmuna sem við höfum að verja sem útflutningsþjóð. Annað

hefur hvergi komið fram, hvað þá að það hafi komið fram í orðum mínum áður. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að draga þessi ummæli sín til baka.
    Ég er einnig þeirrar skoðunar að það hafi þurft lagasetningu til að eyða þeirri réttaróvissu sem nú er uppi. En það vekur furðu ef það sem við gerum núna átti ekki að duga nema fram að GATT-samningum að ekki skyldi vera hægt að leysa það á þann hátt sem ég veit að hæstv. ráðherra vildi, að það væri gert með almennri yfirlýsingu í lögum um forræði landbrh. varðandi innflutninginn annan en þann sem við höfum nú þegar samið um varðandi milliríkjasamninga. Síðan gæti framkvæmdin þessa 11 eða 17 mánuði eftir atvikum byggst á trausti og trúnaði manna innan ríkisstjórnar. En það traust og sá trúnaður er ekki til og þess vegna er brugðið á þetta fáránlega ráð að lögfesta tollflokka í viðauka við lögin. Það er að mínu mati niðurlæging fyrir landbúnaðinn að hann skuli ekki hafa ráðherra innan ríkisstjórnar sem er treyst til að fara með málaflokkinn, að það þurfi að njörva þetta niður í tollnúmerum og í lögum til þess að hann framkvæmi ekkert sem ekki er ráðherrum Alþfl. þóknanlegt.