Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:09:50 (3816)


[18:09]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem framsóknarmenn hafa hér lagt fram horfir ekki til lengri tíma en það frv. sem ég hef lagt hér fram og er ekki nægilegt ef við höfum GATT-samningana í huga.
    Ég vil í annan stað taka það alveg skýrt fram og það er hv. þm. fullkunnugt og hefur margsinnis komið fram, að innflutnings- og útflutningsmál landbúnaðarins eru í höndum landbrh. Undirbúningurinn að GATT-viðræðunum hvað þetta varðar er í höndum landbrh. Hins vegar fer utanrrh. með samningagerð erlendis nú eins og áður og þá auðvitað í umboði landbrh.
    Ef hv. þm. er að tala um það að risið sé lágt á mér í sambandi við bændur og landbúnaðinn þá langar mig að spyrja hann um það hvernig sú ríkisstjórn sem hann studdi skildi við í þeim efnum. Hvernig var ástandið þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hvarf frá? Hvar var valdið þá í sambandi við verðjöfnunargjöld? Eða voru yfirleitt einhverjar heimildir í lögum til þess að leggja verðjöfnunargjöldin á? Þó var búist við því að samningarnir tækju gildi á miðju sumri. Hvernig var ástandið þá gagnvart garðyrkjubændum? Þeir höfðu ekki fengið að sjá ,,cohesion-listann``. Okkur tókst að ná fram nokkrum leiðréttingum á honum. Hvernig var ástandið? Og hver voru yfirleitt tök landbrh. á þessum málum í heild sinni? Með þeim lista sem hér er lagður fram eru tekin af öll tvímæli. Ég skora á þingmenn Framsfl. að koma út úr myrkrinu og skýra frá því hvers þeir sakna. Er eitthvað sem ég er að gefa eftir sem áður var tvímælalaust í höndum landbrh.? Ég kannast ekki við það.
    Það hafa verið uppi deilur um þessi atriði innan ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki heyrt fyrrv. landbúnaðarráðherra lýsa því yfir að þeir hafi haft öll tök á Alþfl. t.d. í síðustu ríkisstjórn. Ég hef ekki heyrt það. Og ég hygg að það hafi enginn landbrh. fengið jafnmiklar heimildir í þessum efnum og felast í því frv. sem hér liggur fyrir.