Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:12:11 (3817)


[18:12]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil benda á þann stóra mun að fram til desember 1992 var almennur innflutningur háður leyfum og fram að þeim tíma veitti viðskrn. ekki heimildir fyrir innflutningi á almennum landbúnaðarvörum. ( Landbrh.: Var það ekki?) Það sem þá stóð út af og deilan stóð um var hvað væru iðnaðarvörur og hvað væru landbúnaðarvörur. Þetta er hæstv. ráðherra fullkunnugt um. En hæstv. ráðherra kýs að liggja alltaf í fortíðinni. Það hefur margt breyst síðan. En það sem stendur upp úr er að nú 11 mánuðum áður en við eigum að ganga inn í GATT og búa við allt aðrar aðstæður er ekki enn búið að ganga tryggilega frá heimildum varðandi þessar breyttu aðstæður. Hæstv. ráðherra sagði í greinargerð með frv. sínu í fyrra að það væri nauðsynlegt að gera lagabreytingarnar á innflutningslögunum 1992 til að eyða réttaróvissunni. Nú kemur hæstv. ráðherra upp og er hissa á hæstaréttardóminum vegna þess að hann taldi að sjálfstæða innflutningsbannið í búvörulögunum ætti að halda. En hvað átti þá hæstv. ráðherra við með því í greinargerðinni í fyrra að þessu yrði að breyta og það strax?
    Ég vil í öðru lagi nefna að það er rétt hjá hæstv. ráðherra að frv. sem við framsóknarmenn höfum lagt fram sé eingöngu til ársins en að mínu mati er hægt að vinna það þannig að það gæti tekið á GATT einnig. Ég vil einnig minna hæstv. ráðherra á að í frv. er eingöngu um að ræða almenna heimild landbrh. til þess að hindra innflutninginn að öðru leyti en sem viðkemur milliríkjasamningi. Það er ekki verið að njörva þetta niður og við sáum það ekki fyrir, okkur óraði ekki fyrir því að ráðherrar þyrftu að sitja yfir því vikum saman að negla þetta allt saman niður í tollnúmerum.