Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:26:02 (3819)


[18:26]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Út af síðustu ummælum hv. þm. vil ég segja það að ef rétt þykir af öryggisástæðum að kveða skýrar á um það hvort tollskrárnúmer kunni að breytast þá hygg ég að ekki séu vandkvæði á því að auðvelt sé að koma slíku við. Og eins ef mönnum þykir rétt að hafa tilvísun til laga um dýrasjúkdóma þá er jafnauðvelt að koma slíku við en ég hafði ekki út í það hugsað.
    Ég vil segja að öðru leyti um það sem hv. þm. sagði að auðvitað er úrskurður forsrh. alveg skýr varðandi forræði þessara mála. Þau lög sem síðan hafa verið samþykkt hér á Alþingi um þessi efni styrkja einungis hans úrskurð og eru í samræmi við hann.
    Ég vil líka segja að þessi breyting að veita landbrh. skýlausa heimild til álagningar verðjöfnunargjalda væri meira en lítið út í hött ef hugmyndin væri síðan sú að taka þessi mál úr höndum landbrn. Landbrn. hefur þannig vald á álagningu verðjöfnunargjalda og metur hvernig með þau skuli farið í sambandi við milliríkjasamninga og landbrn. hefur einnig með höndum útreikninga á tollígildum og viðræður við erlenda aðila um þau efni þannig að þessi mál eru í höndum og á ábyrgð landbrh. og landbrn.