Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:30:10 (3821)


[18:30]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi innflutningslögin, þá hygg ég að það sé svo að ekki sé hægt að skilja dóm Hæstaréttar öðruvísi en svo að í þeim felist heimild til þess að banna innflutning á landbúnaðarvörum. En á hinn bóginn kemur það fram í dómnum að með því að fyrrv. viðskrh. felldi niður auglýsingu þar sem fjöldi landbúnaðarvara var skilgreindur í samræmi við búvörulögin, þar sem sú auglýsing var felld úr gildi og öllum landbúnaðarvörum sleppt í hinni nýju reglugerð sem er nr. 415/1992, þá hygg ég að Hæstiréttur hafi metið það svo að með þessari stjórnarathöfn hafi hæstv. fyrrv. viðskrh. ekki nýtt sér þær heimildir sem voru í lögum til þess að kveða á um það bann við innflutningi sem í búvörulögunum felst. Ég hygg að rétt sé að íhuga þessi atriði. Ég skil hæstaréttardóminn þannig.